7.1.2022 10:07

Vítahringur sýnatökunnar

Að stofna til víðtækrar sýnatöku og birta daglega tölur úr henni vegna vægra sýkinga ýti aðeins undir ótta og geti leitt til „ofsahræðslu“.

Nýjustu tölur sýna að nú hafi 300 milljónir manna smitast af kórónuveirunni í heiminum öllum. Þá er bent á að það hafi tekið rúmlega eitt ár að 100 milljónir smituðust, helmingi skemmri tíma að talan hækkaði í 200 milljónir en aðeins fimm mánuði að hækka hana í 300 milljónir.

Það var Center for Systems Science and Engineering við Johns Hopkins háskóla í Bandaríkjunum sem birti 300 milljón manna töluna fimmtudaginn 6. janúar 2021.

Sé rennt yfir fjölmiðla í nokkrum löndum föstudaginn 7. janúar sést að sú skoðun á vaxandi hljómgrunn meðal sérfræðinga og ráðgjafa stjórnvalda að athyglinni skuli ekki lengur beint að þessum tölum heldur að fjölda þeirra sem þurfa sjúkrahúsvist. Má rekja það til ómikron-afbrigðis veirunnar sem smitast hratt en án alvarlegra einkenna. Dæmi eru tekin frá Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi um að innlögnum og dauðsföllum vegna veirunnar fjölgi hægar en smitunum meðal íbúa landanna.

Dr. Anthony S. Fauci, helsti smitsjúkdómafræðingur Bandaríkjastjórnar, sagði sunnudaginn 2. janúar að með tímanum og þegar afleiðingar smitunar yrðu síður alvarlegar væri skynsamlegra að horfa á fjölda innlagðra á sjúkrahús en smitaðra.

Frá Bretlandi berast fréttir um að annan daginn í röð hafi veirutilvikum fækkað 7. janúar. Dagtölur séu nú lægri en fyrir viku og vonað sé að ómikron-bylgjan hægi á sér.

1641380881465Í Frakklandi leggur þjóðkunnur læknir, Gérald Kierzek, til að almennri sýnatöku vegna veirunnar verði hætt. Að stofna til víðtækrar sýnatöku og birta daglega tölur úr henni vegna vægra sýkinga ýti aðeins undir ótta og geti leitt til „ofsahræðslu“.

Læknirinn spurði á Twitter mánudaginn 3. janúar: Hvað með að hætta einfaldlega sýnatöku? Spurningin olli nokkru uppnámi á sama tíma og smitum fjölgaði og sjúkrahús kveiktu á viðvörunarljósum sínum. Læknirinn hélt sínu striki og sagði að þetta yrði að ræða í ljósi þess að nú breiddist út skaðlaust afbrigði veirunnar.

„Við blasir farsótt með nýjum svip. Ómikron-afbrigðið er ekki lengur hættulegt, vegna þess fara mjög fáir á sjúkrahús og það birtist örsjaldan í alvarlegri mynd. Það ber því að hverfa frá „daglegum smittölum“ sem eru fóður fyrir „hrakspámenn“ og ala á ofsahræðslu,“ segir Gérald Kierzek í Le Figaro föstudaginn 7. janúar.

Annars staðar segir hann að almenn sýnataka skapi vítahring. Því meira sem sé leitað þeim mun meira finni menn og verði þar með hræddari. Endurtekin sýnataka í skólum skapi börnum, foreldrum og kennurum kvíða. Biðraðir við sýnatökustaði veki tilfinningu um getuleysi kerfisins. Menn vanmeti sálrænu áhrifin af þessu til skamms og langs tíma, þau verði einnig að hafa þau í huga við heildarmatið.

Allt sýnir þetta að taka verður tillit til mismunandi viðhorfa við ákvarðanir sem snúast um slagæðar samfélaganna. Við hlið læknis- og faraldsfræðinnar er síðan lög- og stjórnsýslufræðin ásamt kröfunni um virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti og frelsi einstaklingsins.