27.10.2017 12:27

Vinstristjórn í kortunum

Þetta er álíka svört mynd og við blasti í vikunni fyrir kosningar fyrir ári þegar Píratar leiddu viðræður Bjartrar framtíðar, VG og Samfylkingar um stjórnarmyndun.

 Könnun Félagsvísindastofnunar HÍ sem gerð var fyrir Morgunblaðið og birtist í dag (27. október) sýnir að úrslit kosninganna á morgun leiða til viðræðna um myndun vinstri stjórnar. Þær sýna einnig að um fjölflokka stjórn verður að ræða þar sem vinstri-græn (VG), Samfylking og Píratar kunna að leita samstarfs við Framsóknarflokkinn. Utan stjórnar yrðu þá Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkurinn og Viðreisn.

Þetta er álíka svört mynd og við blasti í vikunni fyrir kosningar fyrir ári þegar Píratar leiddu viðræður Bjartrar framtíðar, VG og Samfylkingar um stjórnarmyndun. Nú reiknar enginn lengur með Bjartri framtíð á alþingi, flokknum sem sprengdi fráfarandi ríkisstjórn og hefur fengið fylgisleysi í könnunum að launum. Framsóknarflokkurinn klofnaði núna í kosningabaráttunni og minna flokksbrotið þykir gjaldgengt meðal vinstri flokkanna.

Þegar hugað er að vinstri viðræðum er rétt að minnast þess að hatur í garð Sjálfstæðisflokksins dugar ekki sem markmið í stjórnarsáttmála þótt það kunni að vera sameiginleg hugsjón flokkanna. 

Um hvað geta vinstri flokkarnir sameinast? Það sama og í febrúar 2009 – hærri skatta, stjórnarskráruppnám og aðildarbrölt gagnvart ESB.

Þegar Jóhanna og Steingrímur J. settust að völdum 1. febrúar 2009 mynduðu þau minnihlutastjórn með stuðningi Framsóknarflokksins undir formennsku Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, nýkjörins flokksformanns. Þá hallaðist framsókn að ESB-aðild og vildi að alþingi afsalaði sér stjórnarskrárvaldinu til stjórnlagaþings.

Píratar máttu sín einskis á þessum tíma en fyrir ári þótti sjálfsagt að þeir leiddu vinstri viðræður fyrir kosningar. Nú þykja þeir sjálfsagðir aðilar að vinstri stjórn eftir kosningar. Að þeir bæti blönduna er af og frá.

VG gerir kröfu um hærri skatta, Píratar heimta aðför að stjórnarskránni og Samfylking vill aðild að ESB. Framsókn fær að dingla með í von um að halda lífi eftir að Sigmundur Davíð yfirgaf hana.

Meðal frambjóðenda í röðum Sigmundar Davíðs eru frjálshyggjumenn sem sjá rautt þegar þeir líta til VG og hafa megna skömm á Pírötum. Um afstöðu hans sjálfs er erfitt að segja, góður árangur í kosningunum verður kjaftshögg hans á ríkisútvarpið og aðra sem hann telur ofsækja sig. Stjórnmálabarátta hans er sjálfhverfari en við eigum almennt að venjast,

Innan Viðreisnar þótti mönnum stofnandi flokksins og formaður of sjálfhverfur og ýttu honum til hliðar. Þá ríkir einnig áberandi þögn um varaformann flokksins. Í kosningaráði Viðreisnar sitja fyrrverandi formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins sem sögðu skilið við hann vegna áhuga á ESB-aðild og upptöku evru. Hvorugu málinu er hampað núna. Flokkurinn stendur fyrir gæslu hagsmuna sem tengjast hag fyrirtækja í eigu þeirra sem hafa lagt honum fjárhagslegt lið og óvild í garð þeirra sem stunda landbúnað og sjávarútveg.

Sjálfstæðisflokkurinn er í raun eini flokkurinn sem stendur fyrir þá stefnu sem þjóðinni hefur reynst farsæl undanfarin ár. Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins:

„Ég hef svo mikla trú á okkur Íslendingum, að ég er algjörlega sannfærður um að við höfum allt sem þarf til þess að skipa okkur fremst meðal þjóða. Það slær mig sem einhvers konar vanmáttarkennd, þegar fólk virðist trúa því að það sé eingöngu með því að gefa frá okkur hluta af fullveldinu, ganga í ríkjabandalag og gefa frá okkur sjálfstæða peningastjórn sem við getum blómstrað.“

Þetta skilur á milli Sjálfstæðisflokksins og þeirra sem hefja vinstri viðræður að loknum kosningum fái þeir afl til þess.