Vinstristjórn í eitt ár
Eitt helsta einkenni verkstjórnarinnar er hve forsætisráðherrann lætur sig atvik og uppákomur litlu varða. Hún hafi ekki verið höfð með í ráðum.
Í dag, 21. desember, er eitt ár liðið frá því að Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar myndaði þriggja flokka stjórn með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, og Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins.
Þær kusu að kenna stjórn sína við valkyrjur og vöktu athygli á eigin ágæti og stjórnarinnar á ýmsan óvenjulegan hátt, þar á meðal með því að taka lagið. Þá hefur forsætisráðherra verið iðin við að gefa eigin stjórn ýmsa gæðastimpla.
Boðað var hagræðingarátak í rekstri ríkisins og leitað til almennings um hugmyndir. Talið var að um 10.000 tillögur hefðu borist. Má í stórum dráttum segja að ríkisstjórnin hafi látið þar við sitja.
Þá var kynnt þingmálaskrá fyrir vorþingið. Efnt var til blaðamannafunda og blásið til sóknar undir slagorðinu verkstjórn sem átti að sýna að öðruvísi yrði staðið að verki en áður í ríkisstjórn og á alþingi.
Inga Sæland, Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, 20. desember 2024 (mynd: mbl.is/Eyþór).
Eitt helsta einkenni verkstjórnarinnar er hve forsætisráðherrann lætur sig atvik og uppákomur litlu varða. Hún hafi ekki verið höfð með í ráðum eða hafi ekki haft vitneskju um gang vandræðamála, jafnvel þótt þau tengist hennar eigin ráðuneyti.
Stundum er sagt að stjórnmálamenn hafi teflonhúð þegar þeir hrista af sér gagnrýni án þess að hún verði þeim til trafala. Annað orð verður að nota til að skilgreina stöðu Kristrúnar Frostadóttur. Það er eins og hún sé stödd innan eigin virkis og um hana standi spunaliðar vörð.
Sé orðinu hallað um stjórnarhætti ríkisstjórnar hennar er fyrsta viðkvæðið jafnan að leita beri skýringa hjá einhverjum öðrum en þeim sem ber ábyrgð á ríkisstjórninni. Það hafi meira að segja setið hér ríkisstjórnir áður og líta beri til þeirra sem sökudólga. Þegar bent er á að þrátt fyrir stóru orðin um eigin ágæti sé ríkisstjórnin duglítil á alþingi er það sagt stjórnarandstöðunni að kenna, hún tali of mikið á þinginu.
Á liðnu vori hafnaði ríkisstjórnin öllum samningum um afgreiðslu hitamála og síðan beitti þingforseti kjarnorkuákvæði þingskapa til að þagga niðri í stjórnarandstöðunni við mikinn fögnuð stjórnarsinna innan og utan þings.
Á haustþingi siluðust nokkur mál ríkisstjórnarinnar í gegnum þingið og þingforsetinn skellti enn á ný skuldinni á „pakkið“, stjórnarandstöðuna, með blótsyrðum í þingsal. Hjálparsveit álitsgjafa utan þings tók upp hanskann fyrir orðljóta forsetann.
Her aðstoðarmanna innan og utan þings gætir orðspors ráðherra og þingforseta. Nýjar fréttir um margföldun útgjalda mennta- og barnamálaráðuneytisins vegna aðkeyptrar þjónustu samskipta- og almannatengslafyrirtækja úr tæpum tveimur milljónum króna í fyrra í rúmar 16,5 milljónir króna í ár sýna aðferðina sem ríkisstjórnin notar til að kynna eigið ágæti.
Það er líklegt að þessi fyrirtæki greini stöðu ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðherra þannig að best sé að beina athygli að störfum fyrri ríkisstjórna til forðast umræður um eigin verk. Að stjórnarliðar geri þetta enn á eins árs afmæli ríkisstjórnarinnar sýnir best í hve mikil vandræði þeir hafa ratað.
Eftir eins árs vinstristjórn bendir allt til þess að vont muni enn versna.