Vinstri villa Samfylkingarinnar
Rökin gegn bankasölunni eru innantóm en tilgangurinn pólitískur. Einfalda leiðin er að tala um tímaskort. Þá heyrast vinstri kenningar um gæði ríkisrekstrar.
Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins 14. janúar flutti Drífa Snædal, forseti ASÍ, ávarp gegn því að ríkið seldi eignarhlut í Íslandsbanka. Taldi hún söluhugmyndina ekki tímabæra en vildi hefja umræður um það sem hún kallaði samfélagsbanka. Mátti ætla að ekkert hefði verið rætt hér um slíkan banka. Það var gert fyrir nokkrum árum. Vilji forysta ASÍ stofna til umræðna um það mál að nýju hlýtur hún að gera það.
Stjórnarflokkarnir standa sameiginlega að því að bjóða hlut í Íslandsbanka til sölu.
Í leiðara Fréttablaðsins í dag (15. janúar) reifar Hörður Ægisson, viðskiptaritstjóri blaðsins, sjónarmið sem fram hafa komið gegn stefnu ríkisstjórnarinnar. Hann segir réttilega að talsmenn Samfylkingarinnar í efnahagsmálum leggi sig nú fram um að gera tortryggilega fyrirhugaða sölu á hlut í Íslandsbanka með hlutafjárútboði og skráningu í Kauphöll.
Rökin gegn bankasölunni eru innantóm en tilgangurinn pólitískur. Einfalda leiðin er að tala um tímaskort. Þá heyrast vinstri kenningar um gæði ríkisrekstrar.
Hörður
Ægisson segir að stjórnvöld eigi ekki að leyfa dragbítum Samfylkingarinnar og
öðrum „að aftra því að stigin séu varfærin skref í að minnka umsvif ríkisins á
bankamarkaði“. Ákvörðun um að hefja söluferlið sé reist á „vandaðri og ítarlegri greiningarvinnu, einkum
Bankasýslunnar, yfir margra ára skeið“.
Forystumenn Samfylkingarinar: Ágúst Ólafur Ágústsson, Logi Einarsson og Oddný Harðardóttir (mbl.is/Árni Sæberg),
Oddný Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra, þingmaður Samfylkingarinnar, er helsti talsmaður flokksins í ríkisfjármálum hvað sem líður upphrópunum flokks- og þingbróður hennar, fjárlaganefndarmannsins Ágústs Ólafs Ágústssonar. Hann er fallinn í ónáð flokksmanna megi marka leka um úrslit í lokaðri, leynilegri skoðanakönnun um frambjóðendur í Reykjavík í september 2021. Um afstöðu Oddnýjar til hugmynda um sölu banka segir í Fréttablaðinu í dag:
„Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, sagði ekki tímabært að selja banka. Það var árið 2016. Svo sagði hún að það væri ekki tímabært að selja banka. Það var árið 2019. Svo sagði hún að það væri ekki tímabært að ræða bankasölu. Það var núna rétt um daginn. Það mun því ekki vera tímabært að ræða bankasölu í góðæri né í niðursveiflu né mitt á milli.“
Oddný tók við embætti fjármálaráðherra í Jóhönnustjórninni 31. desember af VG-manninum Steingrími J. Sigfússyni 31. desember 2011. Hann segir nú um bankasölu í samtali við Kjarnann 15. janúar:
„Ég geri engar athugasemdir við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Í fyrsta lagi er það nú þannig að þessi banki kom óvænt í hendur ríkisins sem greiðsla í formi stöðugleikaframlags. Það var engin sérstök stefna að ríkið ætti að eignast Íslandsbanka og þar af leiðandi á það ekki að vera einhver sérstök stefna að ríkið eigi að eiga hann áfram.“
Er ekki tímabært að grandskoða hve langt til vinstri Samfylkingin ætlar?