26.1.2018 10:16

Vill 9 milljarða í nefskatt til RÚV

Skýrsla fjölmiðlanefndar kallar enn á ný á deilur um ríkisútvarpið og stöðu þess

 Skýrsla nefndar um stöðu íslenskra fjölmiðla sem starfaði undir formennsku Björgvins Guðmundssonar, fyrrv. ritstjóra Viðskiptablaðsins, var kynnt í gær (25. janúar) og segist Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ætla að einhenda sér í að vinna úr tillögum hennar, einkum varðandi skattamál fjölmiðla. Það liggur í loftinu að þeir fylgi með í ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fella niður virðisaukaskatt á bókum. 

Það er rétt sem Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á alþingi í gær um stöðuna á íslenskum fjölmiðlamarkaði: 

„Leikurinn er ójafn. Hann er eins ójafn og nokkur samkeppnisrekstur getur orðið. 

Við horfum fram á skakka stöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði sem hefur orðið til þess að einkareknir fjölmiðlar berjast flestir í bökkum. Ólíkt Ríkisútvarpinu þurfa sjálfstæðir fjölmiðlar að standa reikningsskil á því sem þeir gera.[...] 

Með öðrum orðum, einkareknir fjölmiðlar búa við aðhald almennings. Agavald sem nær hins vegar ekki til hins ríkisrekna fjölmiðils með sama hætti og til einkarekinna. Landsmenn þurfa að greiða útvarpsgjald. Um það sér innheimtumaður ríkissjóðs. Enginn hefur frelsi til að láta óánægju sína í ljós með því að segja upp áskriftinni, slíta viðskiptasambandinu.“ 

Af vefsíðu RÚV.

Þessi orð urðu til þess að Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist „gapandi af undrun“ þegar hún flutti ræðu í þingumræðunum. Í Morgunblaðinu í morgun (26. janúar) segir hún nefskattinn til ríkisútvarpsins rúmar 1.000 kr. á mánuði. Sagt er að hann skili um 4 milljörðum en auglýsingar um 2 milljörðum. Helga Vala segir: „Mætti skoða að hækka útvarpsgjaldið upp í 2.500 kr. á mánuði og með því tryggja áframhaldandi starfsemi þrátt fyrir að Rúv hverfi af auglýsingamarkaði.“ Stefnir hún greinilega að um 9 milljarða nefskattstekjum ríkisútvarpsins! 

Þetta  er síður en svo í fyrsta sinn sem rætt er um stöðu íslenskra fjölmiðla í nýju starfsumhverfi. Það var til dæmis gert á málþingi námsbrautar í hagnýtri fjölmiðlun í Háskóla Íslands 9. ágúst 2001. Þar flutti ég ræðu sem menntamálaráðherra og lýsti von um að ríkisútvarpið mundi breytast til batnaðar yrði því breytt í opinbert hlutafélag. Sagði ég það þekkt víða í Evrópu, að ríkisútvarpsstöðvarnar væru reknar í hlutafélagsformi. Af Norðurlöndunum mætti nefna, að í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð hefðu verið stofnuð hlutafélög um rekstur ríkisútvarpsstöðvanna. 

Þessi breyting var gerð á ríkisútvarpinu.  

Ég veit ekki um neina úttekt um hvort breyting ríkisútvarpsins í ohf. hafi orðið til bóta. Almennt vegna reynslunnar af ohf. rekstri hef ég orðið afhuga ágæti hans. Það ríkir of mikil leynd yfir starfsemi þessara félaga og stjórnir þeirra starfa sem verjendur þeirra út á við frekar en málsvarar eigendanna, skattgreiðenda. Agavald er vissulega í höndum stjórnanna – hefur einhver orðið var við að því sé beitt?