22.12.2023 9:47

Vilja Rússagull til Úkraínu

Verði gengið að svo miklum frystum rússneskum eignum í vörslu á Vesturlöndum yrði um „fordæmalausa aðgerð“ að ræða. 

Bandaríkjastjórn vill að leitað sé allra leiða til að nota megi frystar rússneskar eignir á Vesturlöndum sem metnar eru á allt að 300 milljarða dollara til að fjármagna stríðsrekstur Úkraínumanna. Frá þessu er skýrt í The New York Times föstudaginn 22. desember sem aflað hefur upplýsinga hjá háttsettum embættismönnum í Bandaríkjunum og Evrópu.

Þunginn í athugunum á lagalegri og tæknilegri hlið slíkrar fjármögnunar eykst vegna vandræða Joes Bidens forseta við að fá Bandaríkjaþing til að samþykkja tillögur sínar um framhald á fjárstuðningi við Úkraínu.

Sérfræðingar á vegum G7-ríkjahópsins fara nú í saumana á öllum þáttum þessa máls í umboði fjármálaráðherra og seðlabankastjóra. Segir NYT að Biden-stjórnin vilji að niðurstaða liggi fyrir 24. febrúar 2024 þegar tvö ár verða liðin frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Biden hefur farið fram á að Bandaríkjaþing samþykki 61 milljarða dollara fjárveitingu til Úkraínu. Bandaríska varnarmálaráðuneytið segir að núverandi stuðningur við Úkraínu dugi til ársloka. Verði þingið ekki við óskum forsetans verði sjóðþurrð um áramótin.

Þeir sem hafa auga á boðskap hugsanlegra frambjóðenda repúblikana í bandarísku kosningunum í nóvember 2024 telja að fái þeir sigur þar verði um varanlegan vanda fyrir Úkraínumenn að ræða, treysti þeir áfram á bandarískan stuðning. Það sé því brýnt að huga að öðrum leiðum til að fjármagna varnir Úkraínuhers gegn Rússum.

Images_1703238419530

Verði gengið að svo miklum frystum rússneskum eignum í vörslu á Vesturlöndum yrði um „fordæmalausa aðgerð“ að ræða. Enginn geti sagt fyrir um lögfræðilegar og efnahagslegar afleiðingar. Talið er að stærstur hluti rússneskra eigna sé í Evrópu en um fimm milljarðar dollara séu í vörslu bandarískra fjármálastofnana.

Áður en NYT birti frétt sína hafði The Financial Times sagt frá því 15. desember að meðal G7-ríkjanna væri vaxandi áhugi á að gera rússneskar eignir upptækar í þágu Úkraínumanna.

Nokkrum dögum síðar, 20. desember, sagði þýska vikuritið Der Spiegel frá því að ríkissaksóknari Þýskalands hefði lagt fram gögn með kröfu um að 787 milljónir dollara á frystum rússneskum reikningi í Þýskalandi yrðu gerðir upptækir.

Féð tilheyrir dótturfyrirtæki kauphallarinnar í Moskvu sem ESB setti í bann í júní 2022. Þýsk stjórnvöld frystu féð í þýskum bönkum.

ESB-leiðtogaráðið studdi í október 2023 tillögu um að nota milljarða evra hvalrekaskatttekjur af rússneskum eignum á Vesturlöndum til að standa undir kostnaði við endurreisn í Úkraínu. Fyrr í þeim sama mánuði tilkynnti stjórn Belgíu að hún ætlaði að stofna 1,8 milljarða dollara sjóð í þágu Úkraínu. Tekjur sjóðsins koma frá skattheimtu af rússneskum eignum í Belgíu.

Þess var vænst á fyrri stigum stríðsins að Rússar myndu hreyfa hugmyndum um lyktir átakanna til að endurheimta þetta fé sitt. Það hafa þeir ekki gert. Enn er spurt hvernig þeir bregðist á vígvellinum við upptöku fjárins í þágu óvinarins.