5.12.2022 9:15

Vilhjálmur tekur forystu

Á Facebook síðu sinni segir Vilhjálmur Birgisson og rökstyður að þessi samningur sé sá „langbesti“ fyrir verkafólk á almennum vinnumarkaði sem hann hafi komið að á 20 ára ferli sínum.

Nú eru tæpir tveir mánuðir frá því að þing Alþýðusambands Íslands (ASÍ) var haldið. Fyrir þingið lá í loftinu að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur, yrði næsti forseti ASÍ eftir Drífu Snædal var bolað úr forsetastólnum. Jafnframt var boðað að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Vilhjálmur Birgisson frá Akranesi, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), yrðu varaforsetar sambandsins. Taldi Vilhjálmur þetta öflugt og sigurstranglegt þríeyki.

Ragnari Þór þótti sér ekki sýnd nægileg virðing á þinginu, yfirgaf það í fússi og forsetakjöri var frestað. Var með öðrum orðum tekin ákvörðun um að ASÍ gengi með bráðabirgðaforystu til kjaraviðræðnanna sem nú standa.

Ragnar Þór sagði sig úr samfloti í kjaraviðræðunum með þeim orðum að hann hefði verið „niðurlægður þrisvar“ sama daginn. Hvorki á þingi ASÍ né utan þess er Ragnari Þór sýnd sú virðing sem heldur honum við efni málsins.

Sólveig Anna Jónsdóttir kom til viðræðna við fulltrúa Samtaka atvinnulífsins (SA) með tæplega 90 manna hóp með sér. Sérlegur efnahagsráðgjafi Eflingar, Stefán Ólafsson, fyrrv. prófessor, telur að innleiða eigi höft á svipaðan hátt og gert var fyrir 100 árum til að skapa hæfilega umgjörð um kjarasamninga að skapi sósíalistans í forystu Eflingar.

Sa_sgs_karphusidHalldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og Guðbjörg Kristmundsdóttir, varaformaður SGS, handsala brú að bættum lífskjörum 3. desember 2022 (mynd af vefsiðu SA).

Vilhjálmur Birgisson er sá eini úr þríeykinu, sem ætlaði að leggja ASÍ undir sig fyrir tveimur mánuðum, sem hefur þrek til að ræða við SA og ljúka gerð kjarasamnings fyrir 17 aðildarfélög SGS. Samningurinn var undirritaður laugardaginn 3. desember og gildir hann frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024. Ber hann fyrirsögnina: Brú að bættum lífskjörum.

Á Facebook síðu sinni segir Vilhjálmur Birgisson og rökstyður að þessi samningur sé sá „langbesti“ fyrir verkafólk á almennum vinnumarkaði sem hann hafi komið að á 20 ára ferli sínum sem forystumaður í verkalýðshreyfingunni. Á þeim tíma hafi það auk þess aldrei gerst áður að nýr kjarasamningur taki gildi sama dag og eldri samningur renni sitt skeið, hafi liðið tveir og allt upp í fimm mánuði þar til tekist hafi að ganga frá nýjum kjarasamningi með fjárhagslegu tjóni fyrir verkafólk.

Þá segir Vilhjálmur:

„Við í Starfsgreinasambandi Íslands erum gríðarlega stolt af þessum árangri sem við náðum en við lögðum líka gríðarlega hart að okkur. Fórum vart úr húsi ríkissáttasemjara, enda gekk okkar vinna út á að ná góðum kjarasamningi fyrir verkafólk á íslenskum vinnumarkaði. Vinnan gekk út á að ná samningi sem myndi berast hratt til okkar félagsmanna til koma til móts við þær miklu kostnaðarhækkanir sem dunið hafa á launafólki undanfarið. Það tókst án átaka og það tókst að láta allar kauphækkanir taka gildi frá þeim tíma sem eldri samningur rann út.“

Nú kemur í ljós að Sólveig Anna brást trúnaði Vilhjálms þegar hann sat við samningaborðið og Ragnar Þór er enn í fýlu. Hvers eiga umbjóðendur þeirra að gjalda? Enn og aftur.