13.6.2017 9:37

Viðvörun frá Króatíu kallaði á sérsveit

Liðsauki lögreglu var kallaður á vettvang vegna viðvörunar um hættu af fótboltabullum frá Króatíu.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að íslenskum lögregluyfirvöldum barst viðvörun frá lögreglunni í Króatíu um að vissara væri að gera sérstakar ráðstafanir vegna komu landsliðs Króatíu til knattspyrnuleiks hér á landi, því fylgdu fótboltabullur. Að fenginni þessari ábendingu fékk höfuðborgarlögreglan liðsauka frá Akureyri og Suðurnesjum auk þess sem 20 menn úr sérsveit ríkislögreglustjóra voru á verði, þeir eru jafnan vopnaðir.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir í Morgunblaðinu í dag að um 50 króatískar fótboltabullur hefðu komið til landsins vegna leiksins. „Við handtókum sjö þeirra fyrir leikinn í gær og við yfirheyrslur kom fram að þessir menn voru miðalausir, en ætluðu sér samt sem áður að komast inn á leikinn og skemma hann eins og frekast væri unnt.“

Þarna er komin einföld skýring á því hvers vegna vopnaðir lögreglumenn sáust á götum höfuðborgarinnar laugardaginn 10. júní þegar efnt var Litahlaupsins sem einkum er ætlað fyrir börn.

Spurning er hvort hindra hefði mátt upphrópanir og hneykslunarorð um sjálfsagðan viðbúnað lögreglunnar hefði verið skýrt frá því fyrir landsleikinn að lögreglan hefði sérstakan viðbúnað af ótta við að öfgafullar, króatískar fótboltabullur gerðu tilraun til að eyðileggja hann. Hefðu slíkar viðvaranir verið birtar hefði það varpað skugga á leikinn, hugsanlega fælt fólk frá að fara á völlinn og spillt allri ímynd þessa sigurleiks íslenska landsliðsins. Þeir sem andvígir eru öllum forvirkum aðgerðum gegn ofbeldisverkum hefðu ekki breytt um skoðun og gagnrýnt lögregluna eins og jafnan áður.

Lögreglan stóð rétt að málum í þessu tilviki hvernig sem á það er litið. Gripið var til nauðsynlegra varúðarráðstafana án þess að blása í hættulúðra. Undarlegt er að fréttahaukunum sem fóru af stað og gerðu viðbúnað lögreglunnar að höfuðfrétt helgarinnar skyldi ekki detta í hug að tengja varúðarráðstafanirnar landsleiknum við Króatíu og komu ofbeldisfullra Króata sem elta króatíska liðið.

Áhugi fjölmiðlamanna um helgina snerist ekki um að leita skýringa á ástæðum viðbúnaðarins heldur snerist hann um að gefa öfgafullri andstöðu vinstri-grænna við störf lögreglunnar trúverðugleika.