8.11.2023 9:32

Viðsnúningur Dags B.

Miðað við fyrri reynslu af yfirlýsingum og kosningaloforðum Dags B. Eggertssonar í borgarstjórastólnum er skynsamlegt að taka með fyrirvara tali hans um sögulegan viðsnúning í fjármálum borgarinnar.

Í september 2015 samþykkti meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur viðskiptabann á Ísrael vegna afsagnar Bjarkar Vilhelmsdóttur (Samfylkingu) og brottfarar hennar til starfa í Palestínu. Í fréttum ríkisútvarpsins 16. september 2015 sagði að hefð væri fyrir því „að fráfarandi borgarfulltrúar flytji kveðjutillögu á síðasta fundi sínum“. Var tillaga Bjarkar um viðskiptabannið samþykkt en framkvæmd hennar rann út í sandinn.

Nú þegar dregur að því að Dagur B. Eggertsson kveður borgarstjórastólinn veitir meirihlutinn honum umboð að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 sem gerir kveðjustund hans við embættið léttbærari eins og heyra mátti og sjá í Kastljósi ríkissjónvarpsins að kvöldi 7. nóvember.

Screenshot-2023-11-08-at-09.29.35Dagur B. Eggertsson og Hildur Björnsdóttir í Kastljósi ríkissjónvarpsins 7. nóvember 2023 (skjáskot).

Í fréttum frá meirihlutanum var lýst ánægju með „viðsnúning í rekstri“ borgarinnar. Gert er ráð fyrir tæplega 4,8 milljarða tapi í rekstri A-hluta Reykjavíkurborgar á þessu ári, en skv. fjárhagsáætlun næsta árs er búist við rekstrarafgangi upp á 591 milljón króna.

Fulltrúar minnihluta í borgarstjórn gleðjast yfir batamerkjum á fjárhag borgarinnar en telja forgangsröðun skakka og að ekki hafi verið skorið niður í raun og veru.

Fráfarandi borgarstjóri og verðandi, Einar Þorsteinsson, voru kampakátir þegar þeir kynntu fjárhagsáætlunina fyrir 2024 og áætlun fyrir næstu fimm ár til 2028. Töldu þeir að hagræðingaraðgerðir sem gripið hefði verið til undir þeirra forystu skiluðu nú þegar árangri og hann ætti bara eftir að aukast.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir ekki rétt að viðsnúningurinn komi til vegna hagræðingaraðgerða borgarstjórnar. Öll útgjöld hafi aukist milli ára en jafnframt hafi verið seilst enn dýpra í vasa skattgreiðenda til að auka tekjur borgarinnar. Það séu skatt- og gjaldagreiðendur sem borgi brúsann, viðsnúningurinn sé vegna þess að auknar byrðar hafi verið lagðar á þá. Þá segist hún ekki sjá neina raunverulega hagræðingu, til dæmis hafi ekkert verið skorið niður í yfirbyggingunni.

Miðað við fyrri reynslu af yfirlýsingum og kosningaloforðum Dags B. Eggertssonar í borgarstjórastólnum er skynsamlegt að taka með fyrirvara tali hans um sögulegan viðsnúning í fjármálum borgarinnar við brotthvarf hans úr borgarastjórastólnum.

Dagur B. er sérfræðingur í að finna sökudólga vegna einhvers sem miður fer. Það verður auðvelt fyrir hann að benda á Einar Þorsteinsson, arftaka sinn, þegar þyngist undir fæti á næsta ári, gerist það ekki verður glorían Dags B.

Í óraunsæjum meirihluta borgarstjórnar þótti við hæfi að leyfa Degi B. að kveðja með bjartri fjárhagsáætlun. Gleðin breytist brátt í hærri gjöld en þá er Dagur B. stikkfrí eins og svo oft áður.