21.11.2024 11:27

Viðreisnarhjartað tifar

Vandi Viðreisnar felst í skorti á trúverðugleika þegar kemur að sjálfu kjarnaatriðinu að baki flokknum, baráttu hans fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Viðreisn á við alvarlegan vanda að ræða í kosningabaráttunni hvað sem könnunum um mikið fylgi hennar líður. Vandinn felst í skorti á trúverðugleika þegar kemur að sjálfu kjarnaatriðinu að baki flokknum, baráttu hans fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var varaformaður Sjálfstæðisflokksins 17. maí 2008 og sagði þá við Fréttablaðið sem spurði hvort hún teldi Sjálfstæðisflokkinn geta klofnað vegna ágreinings um Evrópumál:

„Við erum það sterk að við getum tekist á við umræðuna. Mín afstaða er skýr: Ég er mótfallin því að ganga í Evrópusambandið en ég vil sjá umræðuna þróast með öðrum hætti en hingað til.“

Þá sagði hún einnig mikilvægt að breyta stjórnarskránni svo unnt væri fara með ESB-málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sé þessi skoðun borin saman við það sem Þorgerður Katrín segir nú sem formaður Viðreisnar hefur þrennt gerst: (1) Gerð var misheppnuð tilraun til aðildar að ESB á árunum 2009 til 2013. (2) Þorgerður Katrín klauf Sjálfstæðisflokkinn vorið 2016 til að koma Íslandi í Evrópusambandið. (3) Þorgerður Katrín vill ekki lengur breyta stjórnarskránni til að unnt sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem brýtur gegn henni.

Screenshot-2024-11-21-at-11.25.34

Þorgerður Katrín fór undan í flæmingi í ESB-málinu í þættinum Spursmálum sem sagt var frá í Morgunblaðinu miðvikudaginn 20. nóvember. Hún vildi ekki segja af eða á um það hvort flokkur hennar setti aðildarviðræður við Evrópusambandið sem skilyrði fyrir stjórnarmyndun. Hún vildi ekki heldur taka undir með oddvita flokks síns í Suðurkjördæmi, Guðbrandi Einarssyni, um að ESB-krafa yrði „ófrávíkjanlegt skilyrði“ við stjórnarmyndun af hálfu Viðreisnar. Taldi hún Guðbrand haldinn „ástríðu“ í málinu enda kæmi hann „úr þeim armi verkalýðshreyfingarinnar sem hefur talað fyrir ábyrgu nýju vinnumarkaðsmódeli en ekki síður hinu á sínum tíma að tala fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu“ svona væri „Viðreisnarhjartað“.

Varla hefur verið gefin undarlegri skýring á ESB-aðildarþrá en þessi. Hvers á Guðbrandur að gjalda? Síðan bætti flokksformaðurinn því við að Evrópusambandið væri ekki „markmið í sjálfu sér“.

Stefán Einar Stefánsson stjórnandi Spursmála spurði: „Ætlar þú að setja það sem skilyrði fyrir stjórnarmyndun að það verði gengið til þjóðaratkvæðis um inngöngu í Evrópusambandið?

Þorgerður Katrín svaraði: „Pólitík er ekki krossapróf. Pólitík er list hins mögulega og ómögulega.“

Að lokum skaut formaður Viðreisnar sér undan að svara spurningunni um skilyrðið með því að segja að hún yrði að heyra aðra flokka, „ekki síst gamla fjórflokkinn, segja nei, við treystum ekki þjóðinni“.

Til þessa hafa menn gjarnan litið til Framsóknarflokksins þegar minnst er á stjórnmálastefnu sem kennd er við jájá-neinei eða að vera opinn í báða enda. Tvíræð svör Þorgerðar Katrínar við spurningum um sjálfa grunnstefnu Viðreisnar benda til þess að ástríða hennar sé sess framsóknarmanna á miðjunni.