13.6.2018 13:22

Viðreisn til uppfyllingar

Þótt Viðreisn láti eins og hún standi að nýjum meirihluta er hún ekki annað en uppfylling í skarðið sem myndaðist með niðurlagningu Bjartrar framtíðar.

Hafi kjósendur í Reykjavík sameinast um eitthvað í borgarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí 2018 var það að láta í ljós vantraust á þá sem farið hafa með forystu í málefnum borgarinnar undanfarin átta ár. Þar er Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fremstur í flokki. Hann ætlar þó að sitja áfram og finnst ekkert sjálfsagðara. Nýtur hann til þess stuðnings flokka sem segjast flokkar breytinga, Pírata og Viðreisnar.

Borgarfulltrúar meirihlutans í Reykjavík.

Tilkynnt var 12. júní 2018 að til hefði orðið meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og VG í borgarstjórn með Dag B. Eggertsson áfram sem borgarstjóra. Viðreisn kemur í stað Bjartrar framtíðar og leggur tvo borgarfulltrúa inn í þennan meirihluta.

Þótt Píratar hafi bætt við sig manni, úr einum í tvo, var gerð sú eina meginbreyting á stjórnkerfi borgarinnar að þurrkað er út stjórnkerfis- og lýðræðisráðið sem komið var á fót árið 2014 til að fá Halldór Auðar Svansson til að styðja meirihluta Dags B. og félaga eftir kosningarnar þá.

Píratar töldu árið 2014 nauðsynlegt að stofna stjórnkerfis- og lýðræðisráð til að auka gagnsæi og samráð. „Þetta er heildstæð stefnumótun sem ég held að muni skila sér í áþreifanlegri úrbótum til lengri tíma litið,“ sagði Halldór Auðar Svansson formaður ráðsins. Nú er þetta ráð komið á öskuhaug sögunnar án þess að Píratar æmti eða skræmti.

Viðreisn fékk þá dagskipun frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni sínum, að loknum kosningum að selja sig dýrt. Viðreisn var hafnað sem meirihlutaflokki í Hafnarfirði og Kópavogi en í Reykjavík verður Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, formaður borgarráðs og tekur þar við hkutverki S. Björns Blöndals sem sat í borgarstjórn fyrir Bjarta framtíð.

Pawel Bartoszek, annar borgarfulltrúi Viðreisnar, verður formaður Menningar- og íþróttaráðs í eitt ár en tekur síðan við forsæti borgarstjórnar af Dóru Björt Guðjónsdóttur, oddvita Pírata.

Eftir stólaskipti Pawels árið 2019 verður Hjálmar Sveinsson Samfylkingu formaður Menningar- og íþróttaráðs. Þetta þýðir að Hjálmari er ekki lengur treyst fyrir formennsku í skipulags- og samgönguráði. Píratinn Sigurborg Ósk Haraldsdóttir landslagsarkitekt tekur við formennsku í ráðinu en hún er talsmaður borgarlínu og telur hana besta vin einkabílsins af því að hún stytti biðtíma í umferðarteppu.

Þótt Viðreisn láti eins og hún standi að nýjum meirihluta er hún ekki annað en uppfylling í skarðið sem myndaðist með niðurlagningu Bjartrar framtíðar.