23.2.2021 9:19

Viðreisn tapar á evrunni

Af grein formanns Viðreisnar má ráða að það hafi runnið á hana tvær grímur vegna gagnrýni sem hún og flokkur hennar fær fyrir að setja evruna helst á oddinn.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á Facebook-síðu sinni mánudaginn 22. febrúar 2021:

„Traust til Seðlabankans mælist nú 62% og hefur tekið stökk frá því í fyrra þegar 45% landsmanna sögðust treysta bankanum. Og heljastökk frá árinu 2019 þegar það mældist 31%. Allt samkvæmt könnunum Gallup.

Ég sem seðlabankastjóri er bæði auðmjúkur og glaður við þessar fregnir. Þetta er árangur sem allt starfsfólk Seðlabankans á saman. Þessu trausti fylgir einnig mikil ábyrgð – að við getum staðist þær væntingar sem til okkar eru gerðar.

Þau tímamót urðu í upphafi árs 2020 að ný lög tóku gildi með sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins – og svo tveimur mánuðum síðar skall veirufaraldurinn á. Þannig að ég lít á þessa mælingu sem viðurkenningu á störfum hins nýja banka á þessum erfiða tíma.

Seðlabankinn er útgefandi og varðmaður íslensku krónunnar. Þessi mæling er því vitnisburður um nýtt traust á gjaldmiðlinum okkar - okkar allra landsmanna. (Feitletrun mín.)

Ég er bjartsýnn að eðlisfari – og er handviss um að við komust bratt út úr Covid-kreppunni. Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga - sæta langa sumardaga“

ImpagesSama dag og seðlabankastjóri skrifaði þetta birtist grein í Morgunblaðinu eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, sem hún skrifaði fyrir nokkrum dögum. Þar býsnast hún enn einu sinni yfir íslensku krónunni. Nú vill flokksformaðurinn draga ríkisstjórnina í dilk með sér. Stjórnin vegi að krónunni með því að taka erlent lán í evrum! Þá segir Þorgerður Katrín sér til afsökunar:

„Stundum er sagt að áhrifamesti seðlabankastjóri í heimi geti talað dollarann upp eða niður. Flestir efast þó um að orð hans eða hennar dugi ein og sér. En geti formaður í stjórnarandstöðuflokki talað krónuna niður ber það vott um annað tveggja; einstaklega mikil pólitísk áhrif eða afar veikan gjaldmiðil.“

Af grein formanns Viðreisnar má ráða að það hafi runnið á hana tvær grímur vegna gagnrýni sem hún og flokkur hennar fær fyrir að setja það mál helst á oddinn að vilja kasta krónunni og innleiða evru. Rétt er að minna á að Viðreisn segir ekki unnt að taka upp evru án þess að ganga í ESB. Krónu-kosningamál flokksins er því eitthvað sem ef til vill yrði raunhæft eftir 10 til 15 ár yrði ESB-aðild samþykkt nú sem er borin von. Hve lengi evran verður við lýði er óljóst. Kosningamálið er því dæmigert gervimál eins og svo margt annað hjá Viðreisn.

Við vitum hvað við höfum með krónuna í höndunum og feitletruðu orðin í FB-færslu Ásgeirs Jónssonar segja allt sem segja þarf um það efni á líðandi stundu.

Til þessa hefur Viðreisn veðjað á evruna (án þess að nefna ESB-aðild) til að skapa sér sérstöðu meðal stjórnmálaflokkanna. Grein Þorgerðar Katrínar í gær bendir til að hún átti sig á haldleysi eigin málflutnings. Aukið traust í garð seðlabankans og þar með krónunnar að mati seðlabankastjóra verður kannski til þess að Viðreisn neyðist endanlega til þess að sleppa evru-haldreipi sínu, vilji flokkurinn njóta trausts. Hvað er eftir fyrir flokkinn þegar hann missir evru-glæpinn?