19.8.2024 10:01

Viðreisn styður Dag B.

Það er sama hvað á hefur dunið í stjórnartíð meirihlutans að baki Degi B. Viðreisn hefur ávallt staðið dyggilega að samstarfinu og aldrei hikað við að taka málstað borgarstjórans.

Stjórnmálaflokkurinn Viðreisn hefur í tvö kjörtímabil staðið að meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og stutt Dag B. Eggertsson sem borgarstjóra og nú sem formann borgarráðs.

Í borgarstjórn hefur flokkurinn komist til mestu áhrifa frá stofnun sinni vorið 2016. Þá var markmið flokksins að vinna að inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB) og gæta hagsmuna almennings.

1344334Þrieykið í ráðhúsinu: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs. (Mynd: mbl,.is/Kristinn Magnússon.)

Það er sama hvað á hefur dunið í stjórnartíð meirihlutans að baki Degi B. Viðreisn hefur ávallt staðið dyggilega að samstarfinu og aldrei hikað við að taka málstað borgarstjórans.

Flokkurinn vinnur að því að þrengja að fjölskyldubílnum og hann vill Reykjavíkurflugvöll á brott. Þegar fulltrúi flokksins var í forystu umhverfis- og skipulagsmála hafnaði hann ósk Landhelgisgæslu Íslands um viðbótarflugskýli á þeirri forsendu að ekki tæki að reisa það, flugvöllurinn hyrfi von bráðar. Viðreisn stendur að því að minnka flugöryggi með því að leggjast gegn grisjun trjáa í Öskjuhlíð.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, vísinda- og nýsköpunarráðherra, rifjar upp í Morgunblaðinu í dag (19. ágúst) að árið 2018 mældist Reykjavíkurborg langneðst í þjónustukönnun Gallup í samanburði við önnur sveitarfélög þegar kom að þjónustu leik- og grunnskóla, en einnig í þjónustu við eldri borgara, þjónustu við fatlaða og heildaránægju íbúa. Viðbrögð Viðreisnar og annarra í meirihluta borgarstjórnar var að banna Gallup slíkar mælingar í Reykjavík.

Yfirmaður skólastarfs í borginni segist meta árangur í einstökum grunnskólum út frá efnahag og menntun foreldra og leggst eindregið gegn birtingu upplýsinga til foreldra um stöðu einstakra skóla miðað við heild.

Í fyrrnefndri grein nefnir Áslaug Arna að þrátt fyrir að íbúum Reykjavíkur hafi fjölgað um 16% frá 2014 hafi börnum á leikskólaaldri fækkað um 9%. Vinstri meirihlutinn hafi með því að fækka leikskólaplássum um 940 á einum áratug hrakið frá sér fjölda barnafjölskyldna.

Allt snertir þetta beint hag almennings og er þá aðeins lítið talið af því sem gert hefur verið í valdatíð Viðreisnar í borgarstjórn Reykjavíkur og felur í sér beina aðför að lífsgæðum þeirra sem í borginni búa.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, er nú forseti borgarstjórnar. Enginn hefur leitað álits hennar á fjárhagslegum viðskilnaði Dags B. Eggertssonar úr stóli borgarstjóra með 9,7 milljónir kr. í orlofsgreiðslur auk þess sem þannig hafði verið búið um hnúta að eftir eitt ár í starfi aðstoðarmanns kvaddi fyrrverandi kosningastjóri Samfylkingarinnar borgarbúa með réttindum sem við starfslok námu á áttundu milljón króna vegna biðlauna og ótekins orlofs.

Fyrir utan að berjast fyrir því sérhagsmunamáli sínu að koma Íslandi í ESB segist Viðreisn setja hag almennings í fyrirrúmi. Þórdís Lóa skuldar kjósendum Viðreisnar kynningu á afstöðu sinni til launa- og orlofshliðar borgarstjóraskiptanna. Í þeirri kynningu fælist sýn á hvaða viðhorf forysta Viðreisnar, og eini fulltrúi hennar í áhrifastöðu, hefði til meðferðar á skattfé.