18.12.2024 8:54

Viðreisn snýr sér til vinstri

Viðreisn stendur að myndun vinstri stjórnar hvernig sem Helgi og co. reyna að fela það. Feluliturinn verður alltaf rauður með Samfylkingunni.

Í þættinum Spursmál sem nálgast má á mbl.is ræddi ég föstudaginn 13. desember við Stefán Einar Stefánsson um innlend og erlend málefni. Þar sagði ég það sama og annars staðar að hægri vindar hefðu greinilega blásið kjördaginn 30. nóvember þegar litið væri til þess að VG og Píratar hefðu verið þurrkaðir út af þingi og Sósíalistaflokkurinn hefði ekki haft erindi sem erfiði, hann væri áfram utan þings.

Ég minnti jafnframt á að Kristrún Frostadóttir hefði fært Samfylkinguna til hægri. Taldi ég útgjaldastjórnina sem Kristrún reyndi að mynda núna í krafti skattahækkana í andstöðu við hægri bylgjuna og lýsti undrun yfir að Viðreisn, sjálfskipaður vinur öflugs, frjáls viðskiptalífs og fyrirtækja, skyldi taka þátt í þessum viðræðum. Samfylkingin myndi örugglega færast aftur til vinstri í von um munaðarlaust fylgi á vinstri kantinum.

Vidreisn-logo2Merki Viðreisnar.

Þessi greining á kosningaúrslitunum fer fyrir brjóstið á nafnlausum dálkahöfundum á vefsíðunni Eyjan-DV sem einn stofnenda Viðreisnar, Helgi Magnússon, heldur úti. Þar nota höfundar hvert tækifæri til að sverta Sjálfstæðisflokkinn eða sjálfstæðismenn án þess að þora að birta róg sinn og rangfærslur undir nafni.

Útlegging huldumannsins sem skrifar um samtal okkar Stefáns Einars er reist á þeirri blekkingu að ég hafi rætt úrslit kosninganna með tilliti til ríkisstjórnarinnar sem missti þar meirihluta sinn. Það var alls ekki kjarni samtals okkar, til þess þarf annan þátt. Punktur minn var sá að þrátt fyrir vinda frá hægri á kjördag ætlaði Viðreisn nú að mynda vinstri stjórn.

Ég tel að hægri bylgjan hafi meðal annars birst í því að fráfarandi ríkisstjórn var hafnað, enginn flokkur sem boðaði vinstri stefnu hélt velli. Eftir kosningar glittir hins vegar í vinstrimennsku sé rýnt í það litla sem frá þríeykinu við stjórnarmyndunarborðið kemur. Þá er vaxandi órói innan Viðreisnar.

Stjórn með Samfylkingunni er per definition vinstristjórn og hana er forysta Viðreisnar að reyna að mynda að fordæmi frá borgarstjórn Reykjavíkur þar sem Viðreisn hefur frá 2018 myndað vinstri meirihluta með Samfylkingunni. Allir vita til hvers það hefur leitt – umboðsmaður alþingis telur meira að segja nauðsynlegt að skoða hvers vegna símsvörun borgarinnar sé í molum!

Að þessari skoðun sé hreyft er eitur í beinum nafnleysingja Viðreisnar á vefsíðum Helga Magnússonar. Þeir segja miðjustjórn þriggja flokka nú í burðarliðnum. Fyrir liggi að stefnumál miðflokkanna Samfylkingar og Viðreisnar séu keimlík og því hafi verið fyrirséð að þeir vildu vinna saman í nýrri ríkisstjórn og valið Flokk fólksins til samstarfs. Síðan hvenær hefur Samfylkingin – Jafnaðarflokkur Íslands verið miðflokkur? Eftir að forysta Viðreisnar gekk í flokkinn?

Stjórnmálaskýringar nafnleysingja og tilraunir þeirra til að sverta mig vegna aldurs eru álíka marklaust hjal og að fegra Samfylkinguna með því að kalla hana miðflokk. Viðreisn stendur að myndun vinstri stjórnar hvernig sem Helgi og co. reyna að fela það. Feluliturinn verður alltaf rauður með Samfylkingunni.