20.10.2019 10:48

Viðreisn og 15 mínútna frægðin

Þessi afskiptasemi af mataræði VG-fólks er enn ein tilraun forystufólks Viðreisnar til að tala sjálft sig inn í allar fréttir.

Fyrir þá sem vilja geta lesið það sem sagt er á þingi veldur vonbrigðum þegar dregst að birta ræðutexta á vefsíðu alþingis.  Það á til dæmis við um umræður sem urðu á alþingi 10. október um frumvarpið sem flutt var og afgreitt með hraði til að fullnægja skyldum ríkisins í baráttunni gegn peningaþvætti.

Á vefforsíðu alþingis má hins vegar lesa þessa gleðifrétt:

„Alþingi hefur fengið lánuð tvö rafmagnsreiðhjól til reynslu í tvær vikur. Þingmenn og starfsmenn skrifstofunnar geta fengið hjólin lánuð í lengri og skemmri ferðir. Tilgangurinn er að hvetja til notkunar á reiðhjólum og kanna grundvöll fyrir því að þingið kaupi rafhjól til útlána.

Alþingi tekur þátt í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri og í því felst m.a. að hvetja fólk til að nota umhverfisvæna samgöngumáta til og frá vinnu og á vinnutíma, hvort heldur er í stuttar vinnutengdar ferðir eða skottúra í einkaerindum.“

Sjs-og-ra-profa-rafhjol-2Fréttir hafa borist um að dregið hafi úr aksturskostnaði alþingismanna. Hér eru Steingrímur J. Sigfússon þingforseti og Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri á nýjum fararskjótum alþingis.

Myndin sem hér birtist fylgir fréttinni 18. október 2019, sama dag og landsfundur VG, flokks forseta alþingis hófst. Er ekki að efa að vinstri-grænir hafi fagnað þessu framtaki. Þeir kusu Guðmundi Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra varaformann sinn.

Í anda loftslagsástar ákváðu vinstri-grænir að hafa ekki lambakjöt eða annað kjötmeti á borðum landsfundarfulltrúa.

Þessi ákvörðun fór fyrir brjóstið á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, sem sagði á FB-síðu sinni:

„Ég velti fyrir mér hvort þetta sé kaldhæðni, hugsunarleysi eða bara leiktjöld.

Því þetta er sami flokkur og hefur verið í fararbroddi og beinlínis í samkeppni við hina Framsóknarflokkana um að framleiðslutengja landbúnað upp á tugi milljarða. Aðallega í þágu milliliðanna en ekki bænda, neytenda og hvað þá náttúrunnar sjálfrar.... Miklu nær hefði verið fyrir VG, ef þau hefðu á annað borð viljað vinna gegn kolefnisfótsporinu, að þau hefðu borðað kjöt alla helgina, kvölds og morgna. Ekki linnt látum.“

Þessi afskiptasemi af mataræði VG-fólks er enn ein tilraun forystufólks Viðreisnar til að tala sjálft sig inn í allar fréttir. Sveiflurnar hjá Donald Trump Bandaríkjaforseta móta til dæmis stefnu Viðreisnar í utanríkis- og varnarmálum.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, ræddi peningaþvætti og gráa listann vegna þess á alþingi 17. október (sú ræða hefur birst á vefsíðu þingsins). Þingmaðurinn sagði meðal annars:

„Nú berast hins vegar fréttir af því að ekki sé nóg að gert, enn sé vilji fyrir því að Ísland fari á þennan gráa lista með skelfilegum afleiðingum fyrir íslensk fyrirtæki, orðspor Íslands og almennt fyrir íslensk heimili. Það eru ekki vinir okkar í Evrópusambandinu sem vilja stilla okkur svona upp heldur sérstakir vinir Sjálfstæðisflokksins úr röðum Bandaríkjamanna og Breta sem vilja þannig gera Ísland að fordæmi.“

Hanna Katrín færir engin rök fyrir þessari fullyrðingu sinni. Kínverji er í forystu FAFT-ríkjahópsins sem samþykkti að setja Ísland á gráa listann. Ísland er í hópnum ásamt 36 öðrum ríkjum.

Hanna Katrín virðist ekki vita að auk ríkjanna 37 í FAFT á framkvæmdastjórn ESB aðild að samtökunum. Þingmaðurinn verður að skýra mál sitt betur – líklega telur hún kannski ekki ástæðu til þess. Hún hefur fengið 15 mínútna frægð í fjölmiðlum fyrir að hefja ESB á stall á kostnað Bandaríkjanna og Bretlands.