13.3.2018 13:05

Viðreisn í smiðju hjá Bannon og Trump

Eftir þetta dró Bannon sig í hlé í Bandaríkjaríkjunum enda sóttust fáir eftir að flagga nafni hans. Brá hann þá fyrir sig betri fætinum og hélt til Evrópu.

Enginn hefur „ruggað bátnum“ meira innan lands í Bandaríkjunum og á alþjóðavettvangi en Donald Trump Bandaríkjaforseti. Nýjustu útspil hans eru viðskiptahöft og ákvörðun um að þiggja fundarboð frá Kim Jong-un, einræðisherra í N-Kóreu. Að vísu hefur ekki verið sagt frá boðinu í N-Kóreu þar sem Kim verður að vinda ofan af áralöngum og svæsnum hatursáróðri gegn Bandaríkjamönnum áður en hann „ruggar bátnum“ með því að skýra þjóð sinni frá því að hann hafi beðið um að fá að hitta Trump fyrir milligöngu S-Kóreumanna.

Steve Bannon var hugmyndafræðingurinn á lokadögum kosningabaráttu Trumps. Höfundur bókarinnar Fire and Fury segir að í þann mund sem Bannon kom um borð hjá Trump hafi áhöfn hans verið orðin vonlítil um að ná landi. Hann blés þeim keppnisskap í brjóst og sagði að auðvitað sigraði þeirra maður. Bannon reyndist sannspár og varð ráðgjafi Trumps í Hvíta húsinu. Þar reyndi hann stöðugt að „rugga bátnum“ en fórst það illa úr hendi og hrökklaðist á brott eftir átök við fjölskyldu Trumps. Lýsingin á Bannon í Fire and Fury er á þann vega að hann varð að hverfa frá forystu á vefsíðunni Breitbart. Öflugir styrkveitendur sögðust ekki láta fé af hendi til síðunnar á meðan óvinur Trump-fjölskyldunnar hefði þar áhrif.

Eftir þetta dró Bannon sig í hlé í Bandaríkjaríkjunum enda sóttust fáir eftir að flagga nafni hans. Brá hann þá fyrir sig betri fætinum og hélt til Evrópu.

TELEMMGLPICT000157066852_trans_NvBQzQNjv4BqM37qcIWR9CtrqmiMdQVx7MKu0ORVb9bqetxs5SGSMW0Steve Bannon og Marine Le Pen í Lille í Frakklandi laugardaginn 11. mars.

Hann var á Ítalíu rétt fyrir þingkosningarnar þar og lýsti mikilli ánægju með mikið fylgi flokka sem vilja „rugga bátnum“. Hvatti hann þá til að mynda samsteypustjórn. Frá Ítalíu hélt Bannon til Zürich í Sviss og talaði á fjöldafundi þjóðernissinna. Þar á hann einnig að hafa hitt Alice Weidel frá flokknum Alternative für Deutschland sem „ruggar bátnum“ í Þýskalandi. Frá Sviss fór Bannon til Lille í Frakklandi og flutti hátíðarávarp á flokksþingi Þjóðfylkingar Marine Le Pen. Hvatti hann til þess að popúlistar allra landa sameinuðust. Hann sagði:

„Sagan er einnig hliðholl okkur. Bylgjufall sögunnar er okkur hagstætt og mun tryggja okkur sigur, eftir sigur, eftir sigur.[...] Leyfið þeim að kalla ykkur rasista. Leyfið þeim að kalla ykkur útlendingahatara. Leyfið þeim að kenna ykkur við heimótta.“

Dagana 10. og 11. mars hélt Viðreisn landsþing sitt í Reykjanesbæ undir kjörorðinu „Ruggum bátnum“. Aðeins 66 manns tóku þar þátt í atkvæðagreiðslu. Af ræðu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur flokksformanns má ráða að popúlísk sjónarmið, þó ekki af þjóðernislegum toga, hafi sett svip á málflutning á þinginu.

Slagorð Viðreisnar „Ruggum bátnum“ er hannað í anda stjórnmálastarfs Donalds Trumps: Árangur ráðist af því að fyrst sé allt sett á annan endann. Draga má í efa að Viðreisn hafi afl til þess að standa undir slagorðinu. Bannon gæfi henni þó kannski 3 fyrir viðleitni.