28.9.2017 11:01

Viðreisn í hlutverki fórnarlambsins

Það er aðeins til staðfestingar á fyrri vinnubrögðum og viðhorfi forystusveitar Viðreisnar að vilja gera sig að fórnarlömbum í þessu máli.

Svavar Gestsson, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og sendiherra, ræðir vanda sauðfjárbænda í grein í Fréttablaðinu miðvikudaginn 27. september og lýkur henni á þessum orðum:

„Það VERÐUR að taka á þessum málum af fullri alvöru hvað sem stjórnarfari í landinu líður.“

Hvernig á að skilja þessi orð? Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er starfandi ráðherra sauðfjármála og situr í ríkisstjórninni fyrir Viðreisn. Flokkinn sem leiddi Bjarta framtíð inn í ríkisstjórnina en reynir nú að kenna Sjálfstæðisflokknum um að upp úr samstarfinu slitnaði.

Þorgerður Katrín er fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og Þorsteinn Pálsson er fyrrverandi flokksformaður. Hann hefur gengið fram fyrir skjöldu og sagt Sjálfstæðismenn ábyrga fyrir stjórnarslitunum. Kenning Viðreisnar um stjórnarslitin er reist á þeim orðum Benedikts Jóhannessonar, flokksformanns og fjármálaráðherra, að Sjálfstæðismenn hafi snúist gegn fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018 sem hann lagði fram í þingbyrjun.

Þessi fullyrðing er sögð reist á orðum sem Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðismanna, lét falla. Hann sagði á Facebook-síðu sinni sunnudaginn 24. september:

„ Af umræðum síðasta sólarhringinn má ráða að það virðist hafa farið eitthvað á milli mála hvað ég sagði um skattamál á 1000 manna fundi okkar Sjálfstæðismanna í gær. Það var nákvæmlega þetta - og stendur allt eins og stafur á bók:

„Og þá verðið þið spurð í kosningabaráttunni framundan: En voruð þið ekki búin að samþykkja allskonar skattahækkanatillögur frá fjármálaráðherra Viðreisnar? Hækkun á bensíni, dísilolíu og virðisaukaskatti á ferðaþjónustu? Svarið er NEI.

Engin af þessum tillögum Viðreisnar hafði hlotið afgreiðslu í þeim þingnefndum, sem undir forystu Sjálfstæðismanna höfðu með þær að gera. Fjármálaráðherra var líka fullkunnugt um að við höfðum marga fyrirvara gagnvart þeim öllum – og að engin þeirra færi óbreytt í gegnum þingið með stuðningi Sjálfstæðismanna.““

Þetta er kjarni málsins. Þingnefndir hafa ekki fjallað um frumvarpið og í störfum þingnefnda verða breytingar eins og Þorgerður Katrín og Þorsteinn Pálsson hefðu getað sagt flokksformanni sínum.

Það er aðeins til staðfestingar á fyrri vinnubrögðum og viðhorfi forystusveitar Viðreisnar að vilja gera sig að fórnarlömbum í þessu máli – flokkurinn rekur uppruna sinn til þess að ESB-aðildarsinnar innan Sjálfstæðisflokksins litu á sig sem fórnarlömb. Ekki dugar lengur að nota ESB í þessum tilgangi – nú eru það örlög fjárlagafrumvarpsins og ríkisstjórnarinnar.

Ummæli Svavars Gestssonar sem birtast hér að ofan sýnir að hann telur Þorgerði Katrínu hafa staðið þannig að málum sauðfjárbænda að ýta verði sjálfu stjórnarfarinu til hliðar. Þarf Viðreisn að búa sig undir bændabyltingu?