21.2.2019 10:21

Viðreisn í afneitun með brotlegu flokkunum

Viðreisn hefur sameinast gamla meirihlutanum í afneitun allra lögbrota sem hann stundaði á fyrra kjörtímabili, þar á meðal brotanna í tengslum við kosningarnar.

Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu 31. janúar 2019 að Reykjavíkurborg hefði brotið gegn persónuverndarlögum með afskiptum af kjósendum fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí 2018. Þáverandi forseti borgarstjórnar VG-konan Líf Magneudóttir sagði ekki um kosningasvindl að ræða enda hefði hennar flokkur og Samfylkingin, sem voru í meirihluta, ekki aukið fylgi sitt í kosningunum!

Þetta er frumlegasta afneitun stjórnmálamanns á lögbroti sem birst hefur. Meirihlutinn sem stóð að lögbrotunum hélt áfram að loknum kosningunum með aðstoð fjórða flokksins, Viðreisnar. Hann hefur sameinast gamla meirihlutanum í afneitun allra lögbrota sem hann stundaði á fyrra kjörtímabili, þar á meðal brotanna í tengslum við kosningarnar.

Aðild Viðreisnar að nýjustu afneituninni birtist á borgarstjórnarfundi þriðjudaginn 19. febrúar. Þá fluttu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokk fólksins tillögu um að sveitarstjórnarráðuneytinu yrði falið að skoða aðgerðir Reykjavíkurborgar í tengslum við kosningaþátttöku tiltekinna hópa vorið 2018.

FA12DA2581B22B9EEBBDEB21AA7DAC72E96C78F6533AAD1B9950879B0D749919_713x0Oddvitar meirihlutaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur.

Brotlegu flokkarnir auk Viðreisnar treystu sér hvorki til að fá óhlutdræga skoðun þriðja aðila á starfsháttum sínum né til að fella tillögu flokkanna þriggja. Þeir gripu þess í stað til enn eins blekkingarleiksins með því að flytja og samþykkja breytingartillögu við tillögu minnihlutans sem kollvarpaði efni hennar. Í stað þess að þriðji aðili leggi mat á löglaus vinnubrögð borgaryfirvalda vilja brotlegu flokkarnir og Viðreisn fara í samstarf við sveitarstjórnarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga til að kanna reynslu af því að efla kosningaþátttöku í undanförnum kosningum í ljósi ákvörðunar Persónuverndar!

Í dag, 21. febrúar, kemur Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í útvarpsviðtal og segir það alvarlegt mál að einstakir pólitískir fulltrúar hafi reynt að toga þetta mál ofan í flokkspólitískar skotgrafir. Það voru brotlegu flokkarnir þrír auk Viðreisnar sem drógu málið ofan í svaðið með valdboði sínu. Þeir þola ekki fleiri athuganir óháðra aðila.

Svo reynir borgarstjóri að verjast með því að kjörsókn hafi minnkað á Norðurlöndunum og að vegið hafi verið ómaklega að starfsmönnum Háskóla Íslands vegna samstarfs þeirra við Reykjavíkurborg um þetta verkefni. Borgarstjóri lét þess ekki getið að háskólamennirnir lýsa rannsóknina ónýta vegna þess hvernig borgaryfirvöld undir stjórn Dags B. stóðu að þessu máli, brutu lög og sýndu Persónuvernd óvirðingu.