13.8.2024 9:35

Viðreisn hverfur fyrr en krónan

Lausn Viðreisnar felst í margra ára ferli sem hefst ekki fyrr en tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildarumsókn og viðræður hefur verið samþykkt á alþingi. 

Forystumenn í stjórnmálaflokknum Viðreisn skrifa almennt sömu greinina hver um sig. Stefið er alltaf það sama. Þeir tala niður íslensku krónuna. Tilbrigðin við stefið eru mismunandi.

Sunnudaginn 11. ágúst birtir Thomas Möller, varaþingmaður Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi, grein um krónuna á vefsíðunni Eyjunni. Hann segir þýska ferðamenn undir leiðsögn sinni um landið „orðlausa“ þegar þeir sjái verðið á bjórnum hér. Það sé allt að fjórfalt hér miðað við Þýskaland. Mesta athygli þeirra veki þó „himinháir vextir á húsnæðislánum“ hér.

„Einn þýskur viðmælandi minn var furðu lostinn þegar hann heyrði þetta og sagði að ef þessir vextir væru í Þýskalandi myndi það leiða til byltingar í landinu. Enginn Þjóðverji myndi sætta sig við þessa okurvexti,“ segir Thomas og er ekki í neinum vafa um að krónan, gjaldmiðill okkar, sé „aðalorsök hárra vaxta hér á landi“.

Lausnin er einföld að mati Thomasar: „Það sem þarf að gera er að taka upp alvöru stöðugan gjaldmiðil á Íslandi. Það gerist með inngöngu landsins í ESB og upptöku evru í kjölfarið.“

953840_1723541695364

Sé þetta svona einfalt, hvers vegna hefur þetta ekki gerst fyrir löngu? Önnur spurning er hvort Thomas veki athygli Þjóðverjanna á að lífskjör hér, í Noregi og í Sviss, Evrópulöndum utan ESB og án evru, séu betri en í Þýskalandi.

Sé leitað upplýsinga um þetta hjá gervigreindarforriti fæst þetta svar:

Land VLF á mann (USD) Atvinnuleysi % Gini
Noregur 84,900 2.9 25.9
Ísland 76,000 2.4 26.1
Sviss 88,300 2.2 31.8
Þýskaland 49,500 3.1 31.9

VLF: Verg landsframleiðsla. Gini: tekjuójöfnuður

Háir vextir hér á landi ráðast af ákvörðunum Seðlabanka Íslands um að hafa stjórn á verðbólgu. Þetta er lögbundið hlutverk bankans án afskipta stjórnmálamanna sem geta þó að sjálfsögðu breytt lögum og tekið þetta ákvörðunarvald í eigin hendur. Þarna eiga lögmál hagfræðinnar að ráða ákvörðunum sem taka mið af hagstærðum. Séu þær skoðaðar hér er strax staldrað við hækkun launa og áhrif hennar á verðbólguna.

Lausn Viðreisnar felst í margra ára ferli sem hefst ekki fyrr en tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildarumsókn og viðræður hefur verið samþykkt á alþingi. Enginn meiri hluti er fyrir slíkri tillögu á alþingi. Viðreisn verður horfin sem stjórnmálaflokkur á undan krónunni.

Eins máls flokkur eins og Viðreisn lifir ekki lengi. Hann kemst ekki til áhrifa því aðrir fallast ekki á skilyrðið um að eina málið fái forgang. Forystumenn flokksins tóku feilspor árið 2016 og lentu í öngstræti.