Viðreisn gegn nýliðun bænda
Viðreisn situr ekki ein í ríkisstjórninni. Hún hugsar hins vegar aðeins um sig, meiri sérhagsmunaflokkur hefur ekki sest hér við völd. Þetta birtist á öllum sviðum.
Það er ekki ofmælt að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur séu mislagðar hendur við ákvarðanir á vettvangi hennar sem snúa að dreifbýlinu. Þetta lýsir sér best í afstöðu ráðherra þéttbýlisflokksins Viðreisnar. Þeir hreyfa hverju málinu eftir öðru sem vegur að búsetu utan þéttbýlis. Nú síðast birtist þetta í áformum fjármálaráðherra Daða Más Kristóferssonar um breytingar á lögum um erfðafjárskatt sem talið er að hækki þennan skatt fyrir erfingja bænda.
„Þetta er alveg út úr kortinu,“ segir Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands (BÍ), í samtali við Morgunblaðið í dag (2. des). „Maður notar aldrei jaðartilvik til að finna út skattstofn.“
Margrét Ágústa segir skattahækkunina ganga gegn stjórnarsáttmála Kristrúnar. Þar sé kveðið skýrt á um „að auka eigi nýliðun innan bændastéttarinnar og auðvelda kynslóðaskipti“. Þessi áform gangi þvert gegn því. „Mér finnst þau mjög vanhugsuð og við mótmælum þeim harðlega,“ segir framkvæmdastjóri BÍ.

Áform um hækkun skatta sem vinna gegn nýliðun í landbúnaði eru einnig í andstöðu við landbúnaðarstefnuna sem alþingi samþykkti 1. júní 2023.
Í hugmyndaskjali að baki stefnunni segir að skattkerfið eigi að auðvelda kynslóðaskipti í landbúnaði en ekki hindra. Við ættliðaskipti sé bújörðin oftar en ekki meginsparnaður eldri kynslóðarinnar. Mikilvægt sé að skattareglur taki mið af hagsmunum beggja kynslóða og auðveldi þannig sölu á milli þeirra. Með skattalegum hvötum megi í senn leggja grunn að eftirlaunasjóði eldra fólks og skapa þeim sem yngri eru og taka við búrekstri fjárhagslegt svigrúm.
Í skjalinu frá 2021 er minnt á að nýlegar breytingar sem þá höfðu verið gerðar á skattalögum og heimiluðu að dreifa söluhagnaði af sölu bújarða til allt að 20 ára í stað 7 hefðu reynst mikill stuðningur við nýliðun og búsetu í sveitum landsins. Í lok þessa kafla skýrslunnar að baki landbúnaðarstefnunni segir:
„Hvarvetna er litið til kynslóðaskipta og nýliðunar við mótun landbúnaðarstefnu enda er hún ekki lífvænleg nema vel sé að þessum þáttum búið og afkoma bænda tryggð.“
Tillögur ríkisstjórnarinnar um að íþyngja bændum með nýjum reglum um erfðafjárskatt eru aðför að grunneiningu íslensks landbúnaðar, fjölskyldubúunum. Þau verða að njóta viðurkenningar og stuðnings til að fjölbreytileiki íslenskra byggða raskist ekki. Hann er ekki síður markverð auðlind en það sem landið gefur.
Viðreisn situr ekki ein í ríkisstjórninni. Hún hugsar hins vegar aðeins um sig, meiri sérhagsmunaflokkur hefur ekki sest hér við völd. Þetta birtist á öllum sviðum. Markmiðið er eitt: að veikja þær greinar, landbúnað og sjávarútveg, sem mest reynir á við framkvæmd áforma flokksins um aðild að ESB.
Í stjórnarsamstarfinu er þetta látið bitna á þeim stjórnarflokki sem minnst má sín, Flokki fólksins. Hann hefur til þessa verið andvígur ESB-aðild. Vandræðamálum byggðanna er sópað í fangið á Flokki fólksins án þess að byggðamálaráðherrann, Eyjólfur Ármannsson, fái við nokkuð ráðið. Ætlunin er að hræða líftóruna úr flokknum með því að láta hann fara í brotsjó með þessi vandræði öll og kasta síðan til hans ESB-bjarghring til að fá hann um borð.