Viðreisn forðast að boða ESB-aðild
Ætli Viðreisn að halda sig við ESB-aðildarstefnuna ætti flokkurinn að boða hana á málefnalegan hátt og með rökum sem höfða til íslenskra kjósenda.
Mikil breyting hefur orðið á íslenskum fjölmiðlamarkaði undanfarið þegar sjónvarpsstöðin Hringbraut, dagblaðið Fréttablaðið og prent- og vefmiðillinn DV hafa færst á svo að segja á eina hendi, Helga Magnússonar endurskoðanda. Hann var einn af stofnendum stjórnmálaflokksins Viðreisnar á sínum tíma. Flokkurinn hefur barist fyrir aðild Íslands að ESB með litlum árangri, svo að vægt sé til orða tekið.
Þetta var slagorð Viðreisnar í Reykjavík fyrir kosningar - nú hljómar það sem argasta öfugmæli eftir aðild flokksins að meirihluta í borgarstjórn.
Ætli Viðreisn að halda sig við ESB-aðildarstefnuna ætti flokkurinn að boða hana á málefnalegan hátt og með rökum sem höfða til íslenskra kjósenda. Megi marka grein eftir Benedikt Jóhannesson, hvatamann að stofnun flokksins og formann hans um skeið, í Morgunblaðinu í dag (27. janúar) er ekki nein jákvæð stefna leiðarljós Viðreisnar um þessar mundir heldur áreiti í garð annarra með misvísandi tilvitnunum í einstaklinga í von um að á þann veg megi styrkja málstað flokksins.
Á vefsíðu Hringbrautar og í húskarlahorni Fréttablaðsins er leitast við að draga upp sem neikvæðasta mynd af Sjálfstæðisflokknum. Til dæmis birtir Hringbraut frétt um að Samfylkingarmaðurinn og almannatengilinn Andrés Jónsson hefði fullyrt í setti Silfursins sunnudaginn 26. janúar að sjálfstæðismenn hefðu haldið krísufundi í Valhöll eftir að nýjar kannanir sýndu fram á að Miðflokkurinn væri orðin stærsti flokkurinn í einhverjum landsbyggðarkjördæmum.
Í húskarlahorni Fréttablaðsins eru þessi orð túlkuð á þennan hátt mánudaginn 27. janúar: „Útskýrir þetta fýlusvipinn á ráðherrum flokksins eftir krísufund í Valhöll á mánudaginn síðastliðinn.“
Stjórnmálagreiningar af þessu tagi rista ekki djúpt og breyta engu til eða frá. Þær eru hins vegar dæmigerðar fyrir málgögn þeirra sem eru án stefnu og telja að meta eigi gang mála af því hvort menn komi saman til funda eða hver séu svipbrigði þeirra.
Greining á störfum Viðreisnar í meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur sýnir að borgarfulltrúar flokksins ganga að sumu leyti lengra en sjálfur Dagur B. Eggertsson og Samfylkingin í því að ögra borgarbúum með einkennilegri afstöðu og yfirlýsingum. Hvert vandræðamálið rekur annað en ávallt eru Viðreisnarfulltrúarnir tilbúnir til að sópa vandanum undir teppið.
Neikvæðnin í málflutningi Viðreisnar er reist á upphafi og eðli flokksins. Hann varð til þegar hópur manna innan Sjálfstæðisflokksins sætti sig ekki við afstöðu meirihluta flokksmanna til ESB-aðildar. Síðan varð ESB-aðildarstefnan að engu og ekki einu sinni Viðreisn þorir að berjast fyrir henni þótt hún reyni að klóra í bakkann með því að vega að íslensku krónunni í tíma og ótíma.
Nú virðist Viðreisn helst þrífast á að tala illa um Sjálfstæðisflokkinn megi marka málgögn hans og skrif forystumanna flokksins auk hollustu hans við Samfylkinguna í borgarstjórn Reykjavíkur. Flokkur reistur á neikvæðni lifir aldrei lengi.