2.6.2022 10:35

Viðreisn fer enn til vinstri

Þau greinir á formann og varaformann Viðreisnar í sjávarútvegsmálum og sem þingflokksformaður kemur Hanna Katrín ekki auga á neinn verðugan karlmann varamann sinn í starfshópakerfi matvælaráðherra.

Matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir (VG) hefur sett á laggirnar starfshópakerfi með þátttöku 46 manns til að „greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum ásamt því að meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins“. Starfshóparnir starfa undir heitunum: samfélag, aðgengi, umgengni og tækifæri.

Lítur ráðherrann á þetta sem nýja „nálgun við þær fjölmörgu áskoranir og tækifæri sem eru í sjávarútvegi og snerta samfélagið allt með beinum og óbeinum hætti“. Í stað einnar stórrar pólitískrar nefndar sé nú fyrir hendi opið, þverfaglegt og gagnsætt verkefni fjölmargra aðila sem unnið verði með skipulegum hætti á kjörtímabilinu til ársins 2025.

Í Morgunblaðinu í dag (2. júní) er í Staksteinum vakin athygli á að ráðherra hafi óskað eftir tilnefningu frá þingflokkum á aðalmanni og varamanni, helst karli og konu. Flokkarnir hafi orðið við þessu, aðrir en Viðreisn sem aðeins tilnefndi.

1298100Þorgerður Katrín formaður og Daði Már varaformaður. Honum er ekki gefið tækifæri til að móta framtíð sjávarútvegsins.

Hönnu Katrínu Friðriksson, þingflokksformann og fv. blaðamann, án varamanns. Undrast blaðið réttilega að Viðreisn hafi ekki tilnefnt Daða Má Kristófersson prófessor, varaformann sinn og varaþingmann Hönnu Katrínar, varamann hennar í starfshópakerfi matvælaráðherra.

Daði Már er líklega of sérfróður um málefni sjávarútvegsins fyrir Viðreisn.

„Það er til marks um djúpstæðan ágreining innan þessa litla flokks þegar varaformaðurinn er sniðgenginn og niðurlægður með þessum hætti, einmitt þegar um er að ræða sjávarútveg og stjórn fiskveiða, þar sem fáir standa honum á haus eða sporði; innan Viðreisnar alltjent,“ segir í Staksteinum.

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, að matvælaráðherra hafi „kallað til sómafólk í starfshópana og tilgangurinn sé göfugur. Vandamálið sé að niðurstaðan velti á vilja þingsins. Þar sé við ramman reip að draga“. Um sé að ræða „yfirvarp fyrir VG til að halda áfram í ríkisstjórninni“.

Viðreisnarformaðurinn vill að „sómafólkið“ verði skjól VG til að „taka það skref með Framsóknarflokknum að storka Sjálfstæðisflokknum sem hafi tögl hagldir í sjávarútvegi og vilji óbreytt ástand“. Ofurgróði og lágt auðlindagjald sé „óréttlæti“ sem ekki verði lengur við unað.

Þau greinir á formann og varaformann Viðreisnar í sjávarútvegsmálum og sem þingflokksformaður kemur Hanna Katrín ekki auga á neinn verðugan karlmann varamann sinn í starfshópakerfi matvælaráðherra. Helsta kappsmál Hönnu Katrínar er að leggja stein í götu útgerðarfélaga sem hafa áhuga á að fjárfesta í öðrum greinum.

Formaður Viðreisnar vill að ríkið leggi sem hæsta skatta á sjávarútvegsfyrirtæki og formaður þingflokks Viðreisnar vill setja skorður við fjárfestingum fyrirtækjanna í öðrum greinum. Þessi óbeina þjóðnýtingarárátta ESB-flokksins hefur kallað fram tillögu um að hann sameinist Samfylkingunni. Hvatning Þorgerðar Katrínar um útilokun Sjálfstæðisflokksins er skref í þá átt.