20.7.2021 9:36

Viðnámsþol minnkar í veirustríði

Hafi viðnámsþol heilbrigðisráðherra minnkað er það greinilega orðið að engu hjá Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.

Telji Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sér til framdráttar að ýta undir flokkspólitískan ágreining um sóttvarnaaðgerðir og „saka“ sjálfstæðismenn um að hafa haft „efasemdir um ýmsar sóttvarnaráðstafanir, í raun frá upphafi faraldursins“ hefur ráðherrann ákveðið að fara út á hálan ís tveimur mánuðum fyrir þingkosningar.

Það er rangt að fullyrða eins og gert er í fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins í dag að „óeining“ sé innan ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir sem kynntar voru í gær (19. júlí) um hertar aðgerðir gegn veirunni á landamærunum. Þvert á móti var samstaða um niðurstöðuna en skiptar skoðanir um nauðsyn þeirra. Á þessu tvennu verður að gera skýran mun þegar rætt er um þetta mál eins og öll önnur. Menn geta haft ólíkar skoðanir en samt komist að sameiginlegri niðurstöðu að lokum og það er hún sem gildir. Að framkvæmd hennar er staðið. Ríki óeining gerist ekkert fyrr en hún er úr sögunni.

Það má ráða af orðum Svandísar Svavarsdóttur að viðnámsþol hennar sé að þrotum komið. Í sjálfu sér er ekki undarlegt að þreytu verði vart á stjórnmálavettvangi í stríðinu við veiruna, þetta á ekki aðeins við um íslenska stjórnmálamenn heldur þá um heim allan sem gegna ábyrgðarstörfum á þessum einkennilegu tímum. Kjósi heilbrigðisráðherrann að gera veirustríðið og ólíkar skoðanir vegna þess að kosningamáli fara umræðurnar hins vegar á nýtt stig.

1126243Úr flugstöð Leifs Eiríkssonar (mynd: mbl.is).

Hér á þessum vettvangi hefur undanfarna mánuði verið hreyft sjónarmiðum um veirustríðið sem ekki hafa alltaf fallið að skoðun yfirvalda hér. Kippurinn í fjölgun smita nú á þessum árstíma minnir mikið á það sem gerðist fyrir réttu ári þegar tekið var til við að herða aðgerðir að nýju, á landamærunum og innan lands. Munurinn á stöðunni þá og nú felst í bólusetningunni, hún útilokar ekki veiruna en hættan af henni er mun minni en áður og álagið á heilbrigðiskerfið bærilegra.

Hafi viðnámsþol heilbrigðisráðherra minnkað er það greinilega orðið að engu hjá Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, sem taldi sig staddan í „sirkus“ mánudaginn 19. júlí eftir að ákvörðun ríkisstjórnarinnar var kynnt og hann túlkaði að eigin höfði. Fyrir ákvörðunina hafði hann uppi svikabrigsl á hendur ríkisstjórninni.

Þessi bægslagangur talsmanns ferðaþjónustunnar fellur ekki öllum innan greinarinnar enda eru kröfurnar sem hér eru gerðar til dæmis sambærilegar við þær sem gerðar eru af bandarískum stjórnvöldum gagnvart Bandaríkjamönnum sem hingað koma þegar þeir snúa að nýju til síns heima: Þeir þurfa að sýna fram á neikvætt PCR próf og fara í sýnatöku 1-2 dögum fyrir brottför. Fjöldi bandarískra ferðamanna hér á landi bendir ekki til þess að þeim þyki þetta óbærileg ferðahindrun.

Ferðaþjónustan verður eins og allir aðrir að laga sig að aðstæðum vegna veirunnar. Stóryrði eða svikabrigsl fara talsmanni hennar ekki vel á því óvissustigi sem enn ríkir í veirustríðinu. Hvorki hann né heilbrigðisráðherra ættu að spilla nauðsynlegri samstöðu með orðum sínum.