31.12.2017 10:20

Við áramót

Hér verða í tilefni dagsins nefnd 10 atriði – fimm heima og fimm erlendis – til umhugsunar við áramót.

Hér verða í tilefni dagsins nefnd 10 atriði – fimm heima og fimm erlendis – til umhugsunar við áramót. Notuð eru um 30 orð til að lýsa hverju þeirra – efnisatriði eru nefnd á heimavelli, ráðamenn erlendis.

Sólarupprás séð frá Öskjuhlíð.

Heima:

1. ESB-aðildarumræðu lokið. Fyrir ári unnu þrír flokkar að stjórnarmyndun og þá þvældist aðild að ESB enn fyrir einhverjum þeirra. Eftir nýjar kosningar og stjórnarmyndun er ESB-aðild ekki lengur til vandræða.

2. Breið samsteypustjórn. Fyrir ári unnu einn rótgróinn stjórnmálaflokkur og tveir nýgræðingar að stjórnarmyndun. Annar nýju flokkanna þurrkaði sig út, hinn hefur breytt um andlit. Þrír rótgrónir flokkar sitja í ríkisstjórn.

3. Landsréttur skipaður. Átökin milli þriggja arma ríkisvaldsins urðu hörð við skipan dómara í landsrétt. Tveir armar, framkvæmdavald og löggjafarvald, tóku höndum saman. Síðan hefur dómsvaldið náð sér niðri á framkvæmdavaldinu.

4. Umbreyting vegna útlendinga. Íslenskt þjóðfélag tekur stakkaskiptum vegna fjölda útlendinga í landinu, löglegra og ólöglegra. Báðir hópar kalla á viðbrögð sem oft eru fálmkennd. Skipulagður glæpahópur var upprættur.

5. Máltækni. Umræðan um gervigreind og áhrif hátæknibyltingarinnar hverfist um leiðir til að vernda íslenska tungu. Tæknilega leið til þess er auðveldara að finna en að átta sig á byltingaráhrifunum á samfélagið.

Erlendis:

1. Donald Trump hefur gjörbreytt embætti forseta Bandaríkjanna. Hann stendur berskjaldaður frammi fyrir heiminum og berst með vopnum sem enginn annar forseti hefur beitt. Úrslit orrustunnar eru óráðin en áhrifin eru augljós.

2. Emmanuel Macron. Frakklandsforseti hefur umboð og þingstyrk til að gjörbreyta Frakklandi. Hann hefur á hálfu ári stigið fyrstu skrefin án þess að samfélagið klofnaði. Hann ætlar sér einnig að breyta Evrópusambandinu.

3. Angela Merkel. Þótt flokkur hennar sé enn stærstur á þýska þinginu gengur henni illa að tryggja sér meirihluta til næstu fjögurra ára. Tólf ára seta í kanslaraembættinu kemur henni í koll. Lýðræðisþreyta segir til sín.

4. Vladimír Pútín. Hann hefur haft úrslitavald í Rússlandi í 18 ár og sækist eftir sex árum enn, til 2024. Efnahags- og atvinnulíf er staðnað, lífskjör versna, andstæðingar sæta ofsóknum og ævintýramennska með öflugan her hræðir.

5. Xi Jinping. Alvaldurinn í Kína herðir tökin á kommúnistaflokknum og stjórnkerfinu. Stefnt er að ítökum um heim allan til að tryggja aðgang að orku og auðlindum. Kínversk herskip stunduðu æfingar á Eystrasalti.

Ég þakka lesendum samfylgdina á árinu 2017.