23.9.2017 11:03

VG í sókn og níðið um Sjálfstæðismenn

Steingrímur J. nýtti sér hrunið til að innleiða sósíalíska skattastefnu sem lamaði efnahagslífið en þreifst í krafti fjármagnshaftanna enda vildi hann ekki afnema þau. Skyldi hann innleiða höft á ný um leið og hann tekur upp auðlegðarskattinn?

Skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ sem birtist í Morgunblaðinu í dag sýnir VG sem stærsta flokkinn með 30% fylgi, flokkurinn tvöfaldar fylgi sitt og eflist mjög vegna stuðnings kvenna. Sjálfstæðisflokkurinn fær ekki nema 23% og aðrir flokkar mun minna.

Þegar þetta barst í tal í heita pottinum í morgun sagði einn: „Já, það er víst best að fara safna fyrir sköttunum.“ Þetta er réttmæt ábending með reynsluna frá vorinu 2009 þegar Steingrímur J. nýtti sér hrunið til að innleiða sósíalíska skattastefnu sem lamaði efnahagslífið en þreifst í krafti fjármagnshaftanna enda vildi hann ekki afnema þau. Skyldi hann innleiða höft á ný um leið og hann tekur upp auðlegðarskattinn?

Morgunblaðið birtir hamfara-forsíðufyrirsögn um könnunina. Vissulega yrðu pólitískar hamfarir fengi VG tökin á stjórn landsins en í Fréttablaðinu boðar Katrín Jakobsdóttir minnihlutastjórn undir eigin forsæti. Er það draumastjórnin?

Í könnuninni felst skýr áminning til Sjálfstæðisflokksins um nauðsyn þess að huga að hlut öflugra kvenna við skipan framboðslista fyrir kosningarnar. Í því efni þarf ekki aðeins að vanda valið heldur einnig að vanda umræðurnar á flokksvettvangi. Það var til dæmis furðulegt frumhlaup hjá stjórn Heimdallar á álykta á neikvæðan hátt í garð Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra vegna atburðarrásarinnar sem leiddi til þess að Björt framtíð sprengdi ríkisstjórnina. Allt í ályktun stjórnarinnar einkenndist af taugaveiklun og vanþekkingu.

[Uppfærsla:

Eftir að ofangreint var skrifað og birt um ályktun stjórnar Heimdallar barst mér ábending um að stjórnin hefði séð að sér og sent dómsmálaráðherra eftirfarandi afsökun:

„Við betri athugun og í ljósi aukinna upplýsinga er ljóst að meintur trúnaðarbrestur átti sér ekki stað. Stjórn Heimdallar biður Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, afsökunar á fljótfærni sinni.

Þá fagnar stjórn Heimdallar því að endurskoða eigi núverandi lagaumhverfi í tengslum við uppreist æru. Endurskoðun af þessu tagi er nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir það að þolendur kynferðisafbrota og aðstandendur þurfi að ganga í gegnum sambærilega reynslu og núverandi lagaumhverfi býður upp á. Stjórn Heimdallar ítrekar stuðning sinn við þolendur kynferðisbrota.“]

Málflutningur ákveðins hóps rithöfunda um Sjálfstæðisflokkinn versnar ár frá ári eftir því sem skrif þeirra bera minni árangur. Nú er til dæmis hvatt til þess að Hallgrímur Helgason rithöfundur haldi aftur af sér til að spilla ekki fyrir þeim sem hann er talinn styðja.

Fyrir 15 árum lét Hallgrímur að sér kveða í pólitískum skrifum þegar hann tók upp hanskann fyrir Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi og taldi hann sæta pólitískum ofsóknum vegna lögreglurannsóknar. Fyrir hvatningu frá Hallgrími flutti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fræga ræðu í Borgarnesi snemma árs 2003 og talaði þar í þá veru að Samfylkingin ætti að verja félög á borð við Baug, Kaupþing og fleiri gegn pólitískum ofsóknum af hálfu Davíð Oddssonar.

Fréttablaðinu var beitt af hörku í þágu Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni vorið 2003 en þá var blaðið í leynilegri eigu Jóns Ásgeirs. Eftir hrunið og 1.000 milljarða fall Jóns Ásgeirs sneri Hallgrímur við honum baki og viðurkenndi að Fréttablaðið hefði verið Baugsmiðill. Nú birtir Hallgrímur pólitísk skrif sín á netinu.

Rithöfundurinn Sif Sigmarsdóttir sem búsett er í Bretlandi skrifar hins vegar níðgreinar um Sjálfstæðismenn og Sjálfstæðisflokkinn í Fréttablaðið og segir þar meðal annars í dag:

„Ríkisstjórnin féll vegna þess að einn ganginn enn gerðu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sig seka um leyndarhyggju og svívirðilegan valdhroka – ef ekki beinlínis valdníðslu.“

Þessi setning sýnir að Sif skiptir engu hvort hún fari með rétt mál eða rangt þegar hún setur saman fúkyrðaflaum sinn um Sjálfstæðisflokkinn. Einu sinni var sagt um konu sem skrifaði bækur á enska tungu að henni væri svo ótamt að virða sannleikann að meira að segja væri ekki einu sinni unnt að treysta því að hún færi með rétt mál þegar hún notaði samtenginguna and.

Ekkert af því sem Sif segir þarna er rétt. Þeir sem telja að málflutningur hennar sé einhverjum málstað til framdráttar hljóta að hugsa til hinna sem mælast nú til þess að Hallgrímur Helgason haldi aftur af sér til að spilla ekki fyrir þeim sem hann ætlar styðja.