14.10.2018 10:30

VG hallast að Bannonisma

VG er sammála Steve Bannon um að ekki hafi átt að ráðast á Sýrland.

Innan VG hafa þeir tögl og hagldir í utanríkis- og öryggismálum sem telja sig ráða yfir einhverri töfralausn. Þetta sjónarmið birtist enn einu sinni í ályktun flokksráðsfundar VG sem kynnt var laugardaginn 13. október.

VG vill ekki að öryggi Íslands snúist um „að viðhalda heimsmyndinni eins og hún er með drottnun Vesturlanda, hernaðarlegum íhlutunum þeirra um heim allan og vopnakapphlaupi“.

Stenst þessi skilgreining á stöðu heimsmála þegar grannt er skoðað? Eru ekki miklu fleiri kraftar að verki en þarna er lýst?

Ef til vill á að skoða þessi orð sem stuðning við einhvers konar Trumpisma? Enginn valdamaður hefur í seinni tíð lagt sig meira fram um að vega að rótum alþjóðakerfisins, sem VG kallar „heimsmynd Vesturlanda“, en Donald Trump Bandaríkjaforseti. Ekki er langt síðan hann taldi NATO hafa gengið sér til húðar, hann vegur að frjálsum alþjóðaviðskiptum og leitast við að brúa bilið milli stjórna Bandaríkjanna og Norður-Kóreu svo að dæmi séu nefnd.

D4dc928c255c2891223ebdf401b235863db5c8bdSteve Bannon, fyrrv. ráðgjafi Trumps, safnar nú liði fyrir kosningar til þings Evrópusambandsins í maí 2019.

Steve Bannon, fyrrv. ráðgjafi Trumps, ferðast nú um Evrópulönd og safnar liði fyrir ESB-þingkosningar í maí 2019. Bannon hefur gagnrýnt Trump harðlega fyrir að senda bandarísk flugskeyti á skotmörk í Sýrlandi eftir að Assad harðstjóri beitir eiturefnum þar gegn almennum borgurum.

Í ályktun flokksráðs VG er gagnrýnt að íslensk stjórnvöld hafi „sjálfkrafa“ stutt „árás Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands á Sýrland í apríl síðastliðnum“. VG er sammála Bannon um að ekki hafi átt að ráðast á Sýrland.

Í ályktuninni er að finna gamalkunna andstöðu við NATO, varnarsamstarfið við Bandaríkin og heræfingar á vegum NATO hér á landi og annars staðar. Allt eru þetta gamlar lummur eins og boðuð ferð félagsmanna VG í Þjórsárdal til að mótmæla því að erlendir landgönguliðar fái að ganga þar um óvopnaðir.

Um þetta segir VG að hér fari „fram æfingar í að ná völdum yfir og myrða annað fólk. Sömu hermennirnir og koma hingað munu verða sendir til Miðausturlanda þar sem þeir myrða og pynta almenna borgara með tækninni sem þeir æfðu á Íslandi“.

Ætli enginn í flokksráði VG hafi spurt flutningsmenn þessarar tillögu hvaða fótur væri fyrir henni? Samþykkir flokksráð VG alla vitleysu um þessi mál sem lögð er fyrir það? Er litið á hópinn sem að þessum tillögum stendur sem alkunna friðarspilla? Best sé því að láta þá í friði.