14.11.2025 10:13

Verri efnahagur – úrræðaleysi

Það er augljóst að Viðreisnaráðherrarnir sem fara með utanríkis-, efnahags- og atvinnumál í stjórninni leika tveimur skjöldum gagnvart ESB. 

Nú þegar tæpt ár er liðið frá því að þjóðin treysti Kristrúnu Frostadóttur með plan sitt til að leiða efnahags- og atvinnulífið til nýrrar sóknar og hún myndaði síðan verkstjórn til að hrinda planinu í framkvæmd birtir Hagstofa Íslands í dag (14. nóvember) nýja þjóðhagsspá um „að hagvöxtur verði 1,7% í ár og 1,8% á næsta ári en í fyrri spá var útlit fyrir að hagvöxturinn í ár yrði 2,2% og 2,6% á næsta ári“.

Í tilkynningu á vef hagstofunnar segir að versnandi horfur í útflutningi liti hagvöxt næstu ára. Reiknað er með að innlend eftirspurn verði helsti drifkraftur hagvaxtar í ár en að fjárfesting láti undan á næsta ári á meðan einkaneysla og samneysla vaxi áfram.

Fram kemur í þjóðhagsspánni að áföll í helstu útflutningsgreinum stóriðju og ferðaþjónustu á síðastliðnum mánuðum auk minni aflaheimilda í uppsjávarveiði hafi áhrif á horfur í utanríkisviðskiptum.

Hagstofan segir að verðbólga hafi reynst þrálátari en væntingar stóðu til. Horfur eru á að atvinnuleysi verði meira á þessu og næsta ári en gert var ráð fyrir í þjóðhagsspá 4. júlí sl.

1185268Hagstofa Íslands (mynd:; Hagstofa Íslands).

Spáin kemur á sama tíma og aðrir spámenn velta fyrir sér hvaða vaxtaákvörðun verði tekin í seðlabankanum í næstu viku. Sá spáleikur tekur mið af því við hvern er rætt. Furðulegustu þátttakendur í honum eru þeir sem tala eins og það sé handan við hornið að ná í eitthvað sem lýst er sem evruvöxtum til bjargar þeim sem vilja eignast eigið húsnæði.

Sé reynt að selja aðild Íslands að Evrópusambandinu með evruvöxtum má minna á að leiðtogaráð ESB ræddi húsnæðismálin sérstaklega á fundi sínum 23. október 2025. Einstök ríki ráða ekki við að skapa samkeppnisfær skilyrði fyrir þá sem vilja eignast eða leigja húsnæði. Þetta snertir efnahag, velferð, vinnumarkað og samkeppnishæfni ríkja. Framkvæmdastjórn ESB vinnur nú að aðgerðaáætlun um húsnæðismál eftir að leiðtogaráðið steig fyrsta skrefið í átt að sameiginlegri evrópskri stefnu á sviði húsnæðismála.

Öll afstaða ríkisstjórnar Kristrúnar gagnvart ESB einkennist af togstreitu bæði innan stjórnarinnar sjálfrar og gagnvart ESB. Það er augljóst að Viðreisnaráðherrarnir sem fara með utanríkis-, efnahags- og atvinnumál í stjórninni leika tveimur skjöldum gagnvart ESB. Þeir vilja inn í sambandið og vegna þess tala þeir EES-samninginn niður. Hann er að sjálfsögðu helsta tæki okkar í öllum samskiptum við ESB, gagnvart viðskiptaþvingunum sambandsins og í öðru tilliti.

Að beita sterkasta vopninu gegn ESB þegar grafið er undan atvinnurekstri hér hentar ekki þeim sem vilja draga upp þá mynd að innan sambandsins sé okkar helsta skjól hvort sem litið er til öryggis þjóðarinnar eða kjara á húsnæðismarkaði.

Sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB gengur þvert á íslenska hagsmuni. Landbúnaðarstefna ESB er fyrir suðlæg lönd en ekki norðlæg. Húsnæðisstefna ESB er í mótun. Hún er haldreipi ESB-sinna á sama tíma og ESB sinnir sérhagsmunagæslu sinni með aðför að atvinnufyrirtækjum hér.