Verkfall vegna mistaka
Sé það rétt að þetta sé allt stór misskilningur bæði vegna mistaka í COVID og vegna rangrar hugtakanotkunar verður enn undarlegra en ella að lausn hafi ekki fundist.
Fyrir þá sem glíma við erfiðleika vegna verkfalls BSRB í fjölda sveitarfélaga er lítil huggun í þeirri skýringu á verkfallinu að það sé vegna þess að „hugtakanotkun hafi ruglað umræðuna verulega og ekki á góðan veg“ eins og segir í frétt á visir.is í dag (6. júní). Þar er einnig gefin sú skýring á verkfallinu „að mistök hafi verið gerð í síðustu kjarasamningum þegar heimsfaraldur kórónuveirunnar var að skella á landið í mars 2020“.
Í fréttinni er vitnað í Þórarin Eyfjörð, varaformann BSRB, sem rætt var við í kvöldfréttum Stöðvar 2 mánudaginn 5. júní.
Í upphafi svarar Þórarinn spurningu um hvort BSRB hafi ekki misst af lestinni með því að hafna aðild að samningi Starfsgreinasambandsins í desember 2022 og þar með ekki fengið launahækkun í þrjá mánuði, hvort sanngjarnt sé að krefjast afturvirkni nú.
Í svari sínu segir Þórarinn að aðfararnótt 9. mars 2020, hamfaranótt hjá ríkissáttasemjara í COVID-faraldrinum, hafi verið gerð mistök, ekki í fyrsta sinn við gerð samninga. Um leiðréttingu mistakanna hafi ekki náðst sátt þess vegna sé hluti starfsmanna með lægri laun en aðrir. Það stríði „gegn öllum lögmálum um launagreiðslur á vinnumarkaði“.
BSRB sé ekki að fara fram á afturvirkni, það rugli umræðuna að nota það hugtak. BSRB segi: „Þetta var ástand sem við ætluðum aldrei í. Þetta eru mistök.“
Þá er Þórarinn spurður hvort BSRB sé tilbúið að gefa afslátt vegna þeirra. Svar Þórarins er skýrt:
„Að sjálfsögðu. Vegna þess að afturvirkni myndi þýða allt annað og allt aðrar upphæðir heldur en sú hugmynd sem við erum með á borðinu, sem er eingreiðsla upp á 128 þúsund sem í stóra samhenginu er ekki stór fjárhæð fyrir svona stóran vinnuveitenda en er gríðarlega mikilvægt fyrir okkar launafólk, fyrir félagsmenn okkar.“
Frá baráttufundi BSRB (mynd: BSRB)
Varaformaðurinn notar þarna sömu rök og formaður BSRB, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, hefur áður notað og einnig að þetta sé svo lítil fjárhæð að hún skipti sveitarfélögin engu í stóra samhenginu. Miðað við þessi orð er deilan í sama hnút og hún hefur verið frá upphafi.
Sé það rétt að þetta sé allt stór misskilningur bæði vegna mistaka í COVID og vegna rangrar hugtakanotkunar – mál sem hefði átt að afgreiða í kyrrþey milli aðila með viðurkenningu á mistökum – verður enn undarlegra en ella að lausn hafi ekki fundist.
Að félagsmenn BSRB láti til skarar skríða með verkfallsaðgerðum af þeim þunga sem kynntur var um helgina bendir til að eitthvað meira hangi á spýtunni en af er látið – líklega er það þó enn einn misskilningurinn.
Þeir einu sem misskilja ekki neitt eru þeir sem glíma við daglegan vanda vegna verkfallsins. Það bitnar helst á foreldrum ungra barna. Hvers eiga þeir að gjalda vegna mistaka og rangrar hugtakanotkunar?