25.9.2020 9:39

Verkalýðsforysta á villigötum

Niðurstaðan hjá Icelandair er með öðrum orðum vantraust og vantrú á boðskapnum sem Ragnar Þór Ingólfsson hefur flutt gegn hagsmunum félagsmanna sinna.

Vegna hlutafjárútboðs Icelandair, stórfyrirtækis starfsmanna í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur (VR), fór Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hamförum gegn stjórnendum Icelandair í því skyni að hindra að Lífeyrissjóður VR, LIVE, tæki þátt í útboðinu. Ragnar Þór lagðist einfaldlega gegn endurreisn Icelandair og komst upp með að beita sér á þann veg að LIVE lagði ekkert af mörkum til styrkja stöðu félagsins.

Stóryrðin sem Ragnar Þór notar í þessari atlögu sinni að Icelandair og síðan gegn þeim sem gagnrýna starfsaðferðir hans og telja að LIVE hafi staðið rangt að málum bera vott um veik rök VR-formannsins, fúkyrðin eiga að fæla fólk frá orðaskiptum við hann. Seðlabankastjóri hefur hins vegar boðað athugun á vegum fjármálaeftirlitsins.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar-stéttarfélags, er á svipuðu róli og Ragnar Þór vegna Icelandair. Þegar Drífa Snædal, forseti ASÍ, sá þann kost vænstan vegna eigin orða og annarra í garð Icelandair og Samtaka atvinnulífsins (SA) að bera klæði á vopnin vandaði Sólveig Anna henni ekki kveðjurnar.

Prosenta_1440596528139Stuðningur við Icelandair og málstað þeirra sem vilja standa vörð um félagið birtist í almennri þátttöku í hlutafjárútboðinu:

„Niðurstaða hlutafjárútboðsins sýnir fyrst og fremst trú kaupendanna á því að stjórnendur Icelandair hafi lagt fram trúverðugar áætlanir á óvissutíma. Stjórnendur Icelandair eru hirðar þeirra fjármuna sem gamlir og nýir hluthafar leggja fram,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, dálkahöfundur Morgunblaðsins í dag (25. september).

Niðurstaðan hjá Icelandair er með öðrum orðum vantraust og vantrú á boðskapnum sem Ragnar Þór Ingólfsson hefur flutt gegn hagsmunum félagsmanna sinna.

Skilningur forystu ASÍ á stöðu þjóðarbúsins er reist á svipuðum ranghugmyndum og Ragnar Þór hefur um Icelandair. Talið er að forsendur kjarasamninga hafi ekkert breyst vegna COVID-19.

Hörður Ægisson segir í leiðara Fréttablaðsins í dag:

„Skilningsleysi verkalýðshreyfingarinnar á stöðunni er átakanlegt. Hún hefur verið yfirtekin af fólki sem er heltekið af úreltri og hættulegri hugmyndafræði um viðvarandi stéttaátök. Sé það gagnrýnt hefur það fátt annað fram að færa en skítkast og gífuryrði í garð fólks sem er því ósammála um hvaða leiðir sé skynsamlegt að fara til að bæta lífskjör í landinu. Seðlabankastjóri, sem hefur staðið sig vel á erfiðum tímum, er þannig uppnefndur „einn af hrun-prinsunum“ fyrir það eitt að hafa starfað í greiningardeild í banka og varaformanni stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem hefur stýrt fjölskyldufyrirtæki farsællega til margra ára og farið fyrir Samtökum iðnaðarins, er sagt að snúa sér að því sem hún geri best, að framleiða ís – þegar hún leyfir sér að hafa skoðanir á málum er varða hagsmuni sjóðfélaga. Framganga þessara formanna stærstu stéttarfélaga landsins – VR og Eflingar – er þeim til skammar. Þeim stendur hins vegar alveg örugglega á sama.“