14.8.2023 11:00

Velmegunarvandi írska ríkissjóðsins

Le Figaro segir að þessi góða staða Íra veki öfund allra þjóða í Evrópu en hana megi einkum rekja til þess aðdráttarafls sem írska skattakerfið hefur. 

Eftir að fréttir bárust frá Ítalíu um að ríkisstjórnin ætlaði að hala inn meira fé með svokölluðum hvalrekaskatti á bankana fór íslenski bankamálaráðherrann á stjá og hreyfði hugmynd í svipaða veru hér. Fjármálaráðherrann hreyfst ekki af hugmyndinni. Sérfræðingar í bankarekstri benda ráðherra málaflokksins á að hér sé annað starfsumhverfi banka en á Ítalíu.

Vilji menn skoða góðan árangur ríkja af skattheimtu væri nær að líta til Írlands en Ítalíu. Írska ríkisstjórnin telur að frá og með árinu 2023 til 2026 verði 65 milljarða evru samanlagður afgangur á ríkissjóði Írlands. Talan er svo há í íslenskum krónum að hún segir í raun lítið. Einn milljarður evra er nú 148 milljarðar ISK 65 sinnum, það eru 9620 milljarðar ISK.

Franska blaðið Le Figaro birti frétt um þennan mikla afgang ríkissjóðs Íra sunnudaginn 13. ágúst og minnti á að franski ríkissjóðurinn hefði áratugum saman verið rekinn með halla.

Franska blaðið segir að þessi góða staða Íra veki öfund allra þjóða í Evrópu en hana megi einkum rekja til þess aðdráttarafls sem írska skattakerfið hefur. Fyrirtækjaskattur þar sé aðeins 12,5% miðað við til dæmis 25% í Frakklandi. Þetta hafi orðið mörgum alþjóðlegum fyrirtækjarisum tilefni til að setja evrópskar höfuðstöðvar sínar niður í Dublin.

RFrá höfuðstöðvum Google í Dublin.

Þar megi nefna upplýsingatæknifyrirtæki eins og Apple, Google, Meta en einnig lyfjarisa á borð við Pfizer sem hafi hagnast mjög á COVID 19-faraldrinum. Í ár nemi tekjur írska ríkissjóðsins af sköttum á þessi fyrirtæki um 25 milljörðum evra, þær hafi hækkað um 7% á einu ári. Þá beri einnig að líta til þess að Brexit hafi aukið aðdráttarafl Dublin í augum margra erlendra fyrirtækja.

Le Figaro segir að írska ríkisstjórnin standi nú frammi þeim velmegunarvanda að ákveða hvernig verja skuli þessum miklu skatttekjum. Boðað hafi verið að stofnaðir verði tveir sjóðir, þjóðarsjóður til langtímaávöxtunar og opinber fjárfestingasjóður sem eigi að nýta til fjárfestingar í opinberum mannvirkjum (innviðum) verði slaki í þjóðarbúskapnum.

Um þessa tillögu er deilt eins og við er að búast og er ágreiningur í svipuðum farvegi og hér á landi þegar rætt er um meira fé til velferðar- og húsnæðiskerfisins. Sérfræðingur í írskum efnahagsmálum segir vandræðin í húsnæðismálum megi ekki síst rekja til skorts á vinnuafli, ekkert atvinnuleysi sé og krafa um auknar framkvæmdir leiði til launahækkana og verðbólgu.

Hraðari lækkun erlendra skulda mælist ekki vel fyrir hjá stjórnarandstöðunni. Spurning er hvort útgjöld til írska hersins verði hækkuð eða til aðgerða í loftslagsmálum.

Af frétt franska blaðsins verður hins vegar ekki ráðið að nokkur írskur stjórnmálamaður vilji að skattar verði hækkaðir til að minnka tekjur ríkissjóðs. Frumvarp írskra fjárlaga fyrir árið 2024 verður lagt fram 10. október 2023. Skyldi einhver íslenskur stjórnmálamaður benda Írum á að þeir skuli bara leysa fjárlagavandann með hærri sköttum þegar hann situr við hlið þeirra á alþjóðafundum og hallar sér að skattglöðum Ítölum? Ítalski ríkissjóðurinn rambar á brúninni!