Velferðar-smáhýsi á hrakhólum
Það ber ekki vott um mikla þekkingu á þessum hluta Hlíðanna eða ferðum ungmenna um hann ef velferðarsvið borgarinnar vill í raun skapa þar ástand eins og lýst er í bréfi Þingvangs.
Á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur miðvikudaginn 6. nóvember voru tillögur umhverfis- og skipulagssviðs lagðar fram um afmörkun nýrra lóða fyrir smáhýsi í Skógarhlíð og á Veðurstofuhæð, segir í frétt Morgunblaðsins í dag (12. nóvember). Ekki er nánar lýst hvaða lóðir þetta eru.
Í frétt blaðsins er sagt frá bréfi sem verktakafyrirtækið Þingvangur sendi borgaryfirvöldum. Starfsmenn fyrirtækisins unnu að framkvæmdum fyrir Reykjavíkurborg á Fiskislóð þar sem komið hefur verið fyrir smáhýsum fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs. Í bréfi Þingvangs er þessa lýsingu að finna á ástandinu í smáhýsabyggð velferðarsviðs borgarinnar:
„Mikil eiturlyfjaneysla, eiturlyfjasala, ofbeldi, þjófnaður, sóðaskapur s.s. sprautunálar og annar búnaður til fíkniefnaneyslu svo ekki sé minnst á gríðarlega ruslasöfnun, líflátshótanir, ógnandi tilburðir með hnífum, vopnaburður, skemmdarverk á eigum starfsmanna og fyrirtækis s.s. grýtt í bíla og starfsmenn, ítrekaðar aðgerðir lögreglu og sérsveitar með tilheyrandi lokunum á götum og röskunum fyrir aðra á svæðinu.“
Þá þurfti fyrirtækið að halda úti sérstakri öryggisgæslu á vinnusvæðinu til að gæta öryggis starfsmanna og vernda eigur þeirra.
Í nágrenni Skógarhlíðar er íþróttasvæði Vals
sem mikill fjöldi ungmenna sækir. Skammt frá Veðurstofuhæðinni eru tveir
fjölmennir skólar, Hlíðaskóli fyrir grunnskólanemendur og Menntaskólinn við
Hamrahlíð.
Myndin er úr Morgunblaðinu og sýnir velferðar-smáhýsi Reykjavíkurborgar úti á Granda. Hugmynd er um að dreifa slíkum smáhýsum um alla borga, meðal annars við Skógarhlíð og Veðurstofuhæð.
Það ber ekki vott um mikla þekkingu á þessum hluta Hlíðanna eða ferðum ungmenna um hann ef velferðarsvið borgarinnar vill í raun skapa þar ástand eins og lýst er í bréfi Þingvangs.
Mikil umferðaræð til og frá miðborginni er við Skógarhlíð og Veðurstofuhæð. Vilji borgaryfirvöld taka á móti þeim sem þar fara með hverfi velferðar-smáhýsa gefur það sérstæða mynd af borgarlífinu. Ferðamannastraumur í Perluna hefur stóraukist með endurgerð hennar sem sýningarrýmis fyrir náttúru Íslands. Velferðar-smáhýsi á gönguleið að Perlunni er nýstárleg hugmynd um landkynningu.
Í Morgunblaðinu segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs og varaformaður Samfylkingarinnar, smáhýsi henta sumum einstaklingum betur en að búa í fjölbýlishúsi. Leitað sé að „svæðum um alla borg undir þessi hús“. Ekki sé vilji til að „hafa of mörg á sama stað“. Leitað sé að 20 lóðum en um 70 einstaklingar bíða húsnæðis.
Spurð hvort fylgst sé sérstaklega með íbúum smáhýsa kveður hún nei við. „Það er ekki beint eftirlit með íbúum í Reykjavík, þetta eru jú íbúar sveitarfélagsins og fólkið leigir þessi hús. Þau fá stuðning og hjálp frá sérstöku vettvangs- og ráðgjafateymi sem sinnir sínu starfi mjög vel.“
Hér skal ekki dregið í efa að þeir sem eru í vettvangs- og ráðgjafateyminu sem sinnir íbúum velferðar-smáhýsanna vinna starf sitt af kostgæfni. Að íþyngja þeim með því að velja smáhýsunum stað í nágrenni íþróttamannvirkja, skóla og ferðamannaleiða ber vott um algjört úrræða- og stjórnleysi borgaryfirvalda undir forystu Samfylkingarinnar.