24.10.2018 10:06

Vel heppnaðri varnaræfingu lokið

Það sem dró að sér mesta athygli almennings var Iwo Jima sem var til sýnis í nokkra klukkutíma laugardaginn 20. október.

Varnaræfingin hér á landi í fyrri viku, undanfari NATO-æfingarinnar miklu, Trident Juncture, sem hefst formlega á morgun (25. október) heppnaðist vel. Á leið sinni til landsins og frá landinu reyndi á skipin, áhafnir þeirra og aðra um borð, í vondum veðrum. Tafir urðu á komu bandaríska risa landgöngu-móðurskipsins Iwo Jima og á leið héðan töldu stjórnendur tveggja bandarískra landgöngu-herskipa nauðsynlegt að snúa aftur til hafnar eftir að hafa lent í brotsjó og 12 um borð höfðu slasast.

Það sem dró að sér mesta athygli almennings var Iwo Jima sem var til sýnis í nokkra klukkutíma laugardaginn 20. október. Myndin sem hér birtist eftir Halldór Sigurðsson sýnir biðröðina sem myndaðist í Sundahöfn. Hátt í þriðja þúsund manns fékk leiðsögn um skipið. Með leyfi Halldórs má sjá nokkrar myndanna sem hann tók og setti á Facebook.

44674156_10155560371697251_2507880607279742976_n44728493_10155560370692251_5419402099303645184_n44693938_10155560370172251_3858619784325234688_n44677286_10155560370512251_4574523156768751616_n

Þá er hér myndband s em sent var út í nafni NATO af bandaríska varnarmálaráðuneytinu. Það sýnir bandarísku landgönguliðana í Þjórsárdal.

Picture1Þessi mynd er úr NATO-myndbandinu sem nefnt er hér að ofan,

Fréttastofa ríkisútvarpsins sendi tökulið í Þjórsárdal og beindist athygli fréttamanns meira að Birnu Þórðardóttur, sem hefur mótmælt komu NATO-herskipa og hermanna allt frá árinu 1968, en æfingunni sjálfri. Auk þess var gert veður út af því að birkihríslur hefðu orðið undir skóm eða tjöldum landgönguliðanna. Í hádegi sunnudag 21. október var rætt við starfsmann Skógræktarinnar til að fréttamaðurinn fengi það örugglega staðfest að tjón hefði verið unnið á birkinu, hætti hann ekki spurningum sínum fyrr en hann fékk svar sem honum líkaði þótt skógræktarmaðurinn hefði ekki kynnt sér aðstæður. Það gerði hann mánudaginn 22. október í fylgd starfsmanns varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Augljóst var af fréttum þá að allt sem sagði verið um helgina í fréttatímum ríkisútvarpsins um tjónið á birkinu var orðum aukið.

Á Facebook er síða sem heitir Fjölmiðlanördar. Þar vakti ég máls á því einkennilega fréttamati laugardaginn 20. október að ríkisútvarpið segði ekkert frá mannfjöldanum sem fór að skoða Iwo Jima en elti Birnu Þórðardóttur og fáeina aðra upp um fjöll og firnindi. 

Nördarnir standa margir dyggan vörð um ríkisútvarpið og sé orðinu hallað um það verða gjarnan skemmtilegar og stundum heitar umræður og drógust þær fram á sunnudaginn 21. október þegar stjórnendur síðunnar gripu til þess ráðs að fjarlægja þessa færslu mína og allt sem sagt hafði verið í tilefni hennar. Enga skýringu hef ég fengið en dreg þá ályktun að þeim hafi þótt um of hallað á ríkisútvarpið enda blasti við öllum hvernig fréttastofu þess var misbeitt til að gera vel heppnuðu varnaræfinguna tortryggilega með aðstoð gamalla vina úr röðum herstöðvaandstæðinga.