6.6.2021 10:19

Vel heppnað prófkjör

Verðug spenna myndaðist í kosningabaráttunni þegar tveir frambjóðendur stefndu markvisst á fyrsta sætið.

Vel heppnuðu prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík dagana 4. og 5. júní 2021 lauk með því að Guðlaugur Þ. Þórðarson utanríkisráðherra hlaut 1. sætið með 3506 atkv., Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hlaut annað sætið með 3326 atkv. Þarna skildu 182 atkvæði þau að, sé litið á heildarfjölda atkvæða fékk Guðlaugur Þór 6129 atkv. en Áslaug Arna 6075 atkv. og er munurinn því aðeins 54 atkvæði.

Guðlaugur Þór er vel að sigrinum kominn eftir farsælan feril sem utanríkisráðherra á kjörtímabili þar sem samflokksmenn hans og gamalreyndir stuðningsmenn gerðu harða hríð að honum vegna þriðja orkupakkans, sællar minningar. Áslaug Arna tók við embætti dómsmálaráðherra við erfiðar aðstæður og hefur áunnið sér traust og virðingu í embætti. Hún er glæsilegur fulltrúi nýrrar kynslóðar sjálfstæðismanna.

1279274Að kvöldi kjördags í Valhöll: Guðlaugur Þór og Áslaug Arna (mynd: mbl.is/ Sigurður Unnar).

Verðug spenna myndaðist í kosningabaráttunni þegar tveir frambjóðendur stefndu markvisst á fyrsta sætið. Undir lokin var það til marks um að harka færðist í leikinn þegar stuðningsmenn Guðlaugs Þórs töldu liðsmenn Áslaugar Örnu ekki fara að leikreglum. Yfirkjörstjórn taldi athugasemd þeirra eða kæru án réttmæts tilefnis. Í yfirlýsingu eftir úrslitin sagði Guðlaugur Þór:

„Ég óska Áslaugu Örnu til hamingju með góðan árangur og hlakka til að vinna áfram með henni í nafni sjálfstæðisstefnunnar til að gera Ísland betra og öflugra. Nú snúum við bökum saman og tryggjum Sjálfstæðisflokknum frábæra kosningu í haust.“

Margir frambjóðendur ráku vel skipulagða kosningabaráttu. Einn þeirra studdi ég opinberlega: Diljá Mist Einarsdóttur, hrl. og aðstoðarmann utanríkisráðherra. Hún bauð sig fram í þriðja sæti listans, sætið sem reyndist mér vel í þingmannstíð minni. Hlaut hún glæsilega kosningu í sætið. Um leið og ég fagna því lýsi ég einnig ánægju yfir hve hinum nýliðanum í einu af fjórum efstu sætum listans, Hildi Sverrisdóttur, aðstoðarmanni atvinnu- og nýsköpunarráðherra, vegnaði vel í prófkjörinu.

Diljá Mist hlaut alls 5354 atkv. en Hildur 5264 atkv. þannig að aðeins 90 atkv. skilja þær að. Aðrir frambjóðendur í prófkjörinu hlutu undir 5000 atkvæðum.

Fyrir utan öflugan stuðning við fjóra efstu frambjóðendurna geta allir sem að prófkjörinu stóðu og sjálfstæðismenn í heild fagnað góðri kjörsókn. Alls kusu 7493 og þar af voru 7208 gild atkvæði. Í prófkjöri í mars 2009 voru atkvæðin um 7.800, á árinu 2012 voru 7.322 atkvæði gild í prófkjörinu í Reykjavík en aðeins 3430 laugardaginn 3. september 2016.

Vorið 2016 var Viðreisn stofnuð til höfuðs Sjálfstæðisflokknum og töldu forystumenn flokksins sig hafa í fullu tré við sjálfstæðismenn. Nú ná sjálfstæðismenn sínum fyrri prófkjörsstyrk en innan Viðreisnar ákveða menn framboð í lokuðum bakherbergjum á svo snilldarlegan hátt að þeir halda stofnanda flokksins frá lista með því að móðga hann.