28.5.2021 9:48

Veiruleitin í Wuhan

Krafan um að upplýst sé um hvað gerðist í Wuhan og kínversku veirufræðistofnuninni þar haustið 2019 þegar kórónuveiran komst á kreik verður sífellt háværari.

Íslensk-kínverska viðskiptaráðið hélt málþing miðvikudaginn 26. maí þar sem menn menn veltu fyrir sér hvernig þeir ættu að taka á móti kínverskum ferðamönnum þegar þeir kæmu hingað að nýju.

Jin Zhijian, sendiherra kínverska alþýðulýðveldisins, sagði að Kína hefði fyrst ríkja tilkynnt sjúkdóminn COVID-19 til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO. Veiran hefði fundist í Wuhan-borg og það hefði tekið Kínverja „þrjá mánuði að ná stjórn á ástandinu“. Nú væru aðeins nokkur veirusmit á hverjum degi í Kína, flest á landamærasvæðum.

Þarna er skautað hratt yfir óupplýst mál, dregin upp mynd sem Kínastjórn krefst að aðrir viðurkenni eins og myndina sem sendiherrann krafðist að Íslendingar viðurkenndu varðandi ástandið í Xinjiang-héraði þar sem minnihlutahópur Úígúra sætir ofsóknum yfirvalda í Peking sem vilja uppræta menningarlega sérstöðu hópsins og eyða arfi hans og uppruna.

_117666439_hi066294189-1Við fangelsismúra í Xinjiang-héraði í Kína.

Sendiherrann hafði í hótunum vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa ásamt stjórnvöldum annars staðar í Evrópu fordæmt ofstjórnina í Xinjiang og áréttað sjónarmið sín með því að setja bann á nokkra kínverska embættismenn. Síðar svaraði Kínastjórn í sömu mynt. Evrópulönd hafa ekki gripið til sambærilegra aðgerða gagnvart Kína síðan 1989 þegar blóðbaðið varð á Torgi hins himneskra friðar í Peking.

Nýlega setti Kínastjórn bann á Jónas Haraldsson lögmann vegna skrifa hans um Kína. Má álykta að ákvörðunin tengist svari hennar við evrópska banninu vegna ofríkisins gegn Úígúrum.

Krafan um að upplýst sé um hvað gerðist í Wuhan og kínversku veirufræðistofnuninni þar haustið 2019 þegar kórónuveiran komst á kreik verður sífellt háværari.

Þórólfur Guðnason sóttvarnaklæknir sagði á mbl.is fimmtudaginn 27. maí:

„Ég held að menn geti velt vöngum endalaust yfir því hvernig þetta kom upp, hvernig veiran varð upprunalega til. [...] Núna þurfum við bara að fást við veiruna eins og hún er, sama hvaðan hún kom.“

Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, segir í Fréttablaðinu föstudag 28. maí:

„Við höfum ekkert í höndunum sem stangast á við þá kenningu að þessi veira sé bara venjuleg veira sem hafi orðið til á venjulegan máta. Ekki misskilja mig, ég hef megnustu fyrirlitningu á kínversku samfélagi sem er einræðisríki af verstu gerð. En mér finnst svona lagað hættuleg umræða. Hvers vegna gefa menn út svona yfirlýsingu áður en þeir eru búnir að fá eitthvað í hendurnar sem rennir stoðum undir kenninguna? Úr þessu verður ásökun sem mér þykir ljót og hættuleg.“

Orð þessara ágætu sérfræðinga okkar mega sín lítils miðað við þungann í kröfunni um að fá að vita hvað gerðist í Wuhan. Engin náttúruleg skýring hefur fundist á uppruna COVID-19. Nýjar upplýsingar leiða til þess að óverjandi er að neita því alfarið að ekki kunni að vera um leka af rannsóknarstofu að ræða.

Væl Kínastjórnar undan gagnrýni á ofríkið í Xinjiang-héraði er lágvært miðað við kveinstafina frá Peking og sendiherrum Kínastjórnar um heim allan vegna umræðna um veiruna frá Wuhan.