Veiruleiðsögn Breta
Fréttaflutningur hér af veirunni og yfirlýsingar mótast í vaxandi mæli af því að kosningar eru í nánd og vilji margra stendur til að gera COVID og vandræði Landspítalans að höfuðmáli kosninganna.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ítrekað sagt að í raun sé ekki við neina þjóð að miða vegna þess hve margir hafa verið bólusettir hér á landi. Ísland er eitt þriggja landa sem skipa efstu sæti með yfir 70% fullbólusetta á heimslista The New York Times. Löndin eru Malta með 79% fullbólusettra, Sameinuðu furstadæmin 73% og síðan Ísland 71%. Bylgja skall nýlega á Möltu eins og gerðist hér á landi en hún hjaðnar nú ört.
Frá Bretlandi berast fréttir um að sérfræðingar þar, í þeirra hópi forystumaður bólusetningarteymis frá Oxford, Andrew Pollard prófessor, telji Delta-afbrigði veirunnar útiloka að unnt sé að ná hjarðónæmi. Sérfræðingarnir hvetja til þess að hætt sé fjölda-sýnatöku í Bretlandi svo að Bretar geti tekið til við að lifa með COVID. Það sé tímabært að sætta sig við að útbreiðsla veirunnar til allra íbúa landsins verði ekki stöðvuð og því gagnist ekkert að fylgjast með fólki með væg einkenni.
Andrew Pollard sagði Delta-afbrigðið geta borist í bólusett fólk og þess vegna væri óhugsandi að hjarðónæmi myndaðist þrátt fyrir hátt hlutfall bólusettra. Í The Telegraph er bent á að breskir vísindamenn skýri frá þessari niðurstöðu sinni um sama leyti og Angela Merkel Þýskalandskanslari sé fyrst ríkisoddvita til að skýra frá því að ókeypis sýnatöku verði hætt, það gerist 11. október í Þýskalandi.
Breskir vsindamenn vilja að hætt sé fjölda-sýnatöku vegna veirunnar svo að Bretar geti tekið til við að lifa með COVID.
Í The Telegraph segir að Paul Hunter, prófessor í læknisfræði í East Anglia-háskóla og sérfræðingur í smitsjúkdómum, hafi sagt við þingnefnd að hætta eigi að segja aðeins frá fjölda smita eða fjölda þeirra sem lagðir séu inn á sjúkrahús, nær sé að skýra aðeins frá fjölda þeirra sem veikist af COVID. Að öðrum kosti sé aðeins ýtt undir hræðslu í samfélaginu með mjög háum tölum sem endurspegli í raun ekki álagið vegna sjúkdómsins.
Lægra hlutfall fullbólusettra er á Bretlandi en hér. Við erum því betur sett en Bretar gegn alvarlegum afleiðingum þess að smitast. Ábendingar bresku vísindamannanna eiga erindi til okkar ekki síður en annarra.
Hér hefur undanfarna daga orðið vart við blæbrigðamun, svo að ekki sé meira sagt, í boðskap sóttvarnalæknis og vara-sóttvarnalæknis auk þess sem Kári Stefánsson, sjálfstætt starfandi, hefur viðrað sín sjónarmið. Um það hver þessara þriggja stendur næst skoðunum bresku vísindamannanna skal ekki dæmt. Ríkisstjórnin ákvað í gær (10. ágúst) að tillögu sóttvarnalæknis að framlengja óbreyttar sóttvarnareglur um tvær vikur. Þær eru strangari hér en víða annars staðar, til dæmis hvimleiða grímuskyldan þótt ekkert sé sannað um árangur af henni. Hvers vegna nægir ekki að þeir beri grímu sem vilja?
Fréttaflutningur hér af veirunni og yfirlýsingar mótast í vaxandi mæli af því að kosningar eru í nánd og vilji margra stendur til að gera COVID og vandræði Landspítalans að höfuðmáli kosninganna. Heimagerðar upplýsingar verða því enn brenglaðri en ella. Skorað er á sóttvarnayfirvöld að upplýsa við hvaða erlendu viðmiðanir þau styðjast við ráðleggingar sínar. Slík leiðsögn auðveldaði að átta á sig á hvert stefnir. Við erum ekki eyland í þessu tilliti þótt staðan sé betri hér en víða annars staðar vegna mikilla bólusetninga.