5.6.2018 9:49

Veiðigjöldin - popúlismi Samfylkingar og Viðreisnar

Samfylking í leit að ágreiningsefni hengir nú hatt sinn á veiðigjöld og sama gildir um Viðreisn.

Samfylking í leit að ágreiningsefni hengir nú hatt sinn á veiðigjöld og sama gildir um Viðreisn. Furðulegt er að Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, skuli hafa tekið þannig til orða í þingræðu að landinu sé stjórnað af þremur Framsóknarflokkum.

Aulabrandarar hæfa lélegum málstað og þeir setja vaxandi svip á málflutning talsmanna Viðreisnar. Þessi á einstalega illa við í munni forvarsmanns flokksins því að hann hagar sér nú eins og dæmigerður miðjuflokkur, situr á girðingunni og hallar sér til vinstri eða hægri eftir því hvernig vindurinn blæs.

Nú þegar vinstrisinnuð viðhorf eru á undanhaldi meðal kjósenda, megi marka úrslit sveitarstjórnarkosninganna, snýr Viðreisn sér til vinstri. Verður popúlisti í veiðigjaldamálinu til að þóknast Samfylkingunni og gengur í björg með vinstriflokkunum við myndun nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Veiðigjaldaumræðan er dæmigerð fyrir samhengisleysið sem stefnulausir flokkar vilja að einkenni stjórnmálalífið. Í gildi eru ákveðnar leikreglur varðandi veiðigjöldin og þegar þingnefnd leggur til að þeim sé fylgt umturnast Samfylkingin og fyrrverandi formaður hennar, Oddný Harðardóttir, sem hafði næstum gengið að flokknum dauðum, gerist popúlisti og Viðreisn eltir hana.

Gagnrýnin snýst þó meira um tímasetningar en efni málsins – að mál sem þingið þarf að afgreiða hafi ekki verið lagt fram fyrir sveitarstjórnarkosningar! Úr því að ákveðið var að þingið kæmi saman að loknum kosningunum hljóta þingmenn að hafa gert ráð fyrir að þá yrðu lögð fram mál fyrir þá.

Rifist hefur verið um tímasetningar við framlagningu mála allt frá því að alþingi var endurreist árið 1845. „Að því leyti til skil ég mætavel gagnrýni stjórnarandstöðunnar,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra enda vel að sér í stjórnmálasögunni.

Forsætisráðherra leggur jafnframt áherslu á að óhjákvæmilegt sé að þingið takist á við veiðigjöldin með einhverjum hætti. „Því annars fellur heimild til innheimtu veiðigjalda niður,“ segir ráðherrann. Þá verði ekki heldur litið fram hjá því að afkoma greinarinnar hafi versnað.

Þetta er viðfangsefnið sem Samfylkingin og Viðreisn gera nú að úrslitaatriði á alþingi af því að flokkarnir telja sér helst til framdráttar að herma eftir uppnámsflokkunum sem helst eru í stjórnmálafréttum frá Evrópu. Skyldu Samfylkingin og Viðreisn einnig ætla að elta málflutning þessara flokka þegar kemur að afstöðu til ESB-valdsins?