Vegna deilna um listamannalaun
Það hefur enn sannast á umræðum liðinna daga að seint verður friður um þetta kerfi, hvorki um tilvist þess né um hverjir teljist verðugir styrk- eða launþegar.
Menn þurfa ekki að lesa lengi í þingtíðindum til að rekast á umræður um hvort veita eigi þessum eða hinum einstaklingnum fjárhagslegan stuðning til að vinna að einhverju fræðilegu eða bókmenntalegu verkefni.
Tekist var á um slíkar styrkveitingar við afgreiðslu fjárlaga og felldir dómar um einstaklinga og verk þeirra í ræðustól þingsins. Árið 1927 var ákveðið að færa þetta frá alþingi og menntamálaráð kom til sögunnar. Hlutverk þess var að úthluta styrkjum til listamanna og fræðimanna, meta umsóknir um náms- og ferðastyrki og veita ráðgjöf til stjórnvalda um mennta- og menningarmál.
Það ríkti löngum mikill ófriður um starfsemi ráðsins. Menningarsjóður tók við af menntamálaráði 1968, hann hafði meðal annars það hlutverk að styrkja og efla íslenska menningu á sviði bókmennta, lista og fræða; koma að útgáfu bóka, tímarita og fræðirita. Stjórn sjóðsins tók ákvarðanir um úthlutanir án sérnefnda fyrir einstakar listgreinar. Úthlutun var reist á faglegu mati stjórnarinnar og pólitískri ábyrgð menntamálaráðherra.
Þetta fyrirkomulag var gagnrýnt vegna skorts á skýrum viðmiðum við úthlutun styrkja, mikils valds fárra manna og lítils sérhæfðs mats eftir listgreinum.
Alþingi breytti þessu kerfi með lögum um listamannalaun frá 1991. Komu þá til sögunnar fimm úthlutunarnefndir fyrir mismunandi listgreinar: bókmenntir, tónlist, myndlist, sviðslistir og kvikmyndir. Þær úthluta launum og styrkjum úr ríkissjóði til listamanna samkvæmt fjárlögum hvers árs. Nefndirnar starfa sjálfstætt en á ábyrgð menningarmálaráðherra.
Þetta er í stuttu máli lýsing á því hvernig umgjörðin um listamannalaun hefur þróast hér á tæpri öld sem liðin er frá því að alþingismenn ákváðu sjálfir styrki til lista- og fræðimanna. Þingmenn hafa þó aldrei sleppt hendinni alveg af ákvörðunum um fé til listamanna eins og birtist í því að heiðurslaun listamanna sem alþingi veitir eru enn við lýði.
Það hefur enn sannast á umræðum liðinna daga að seint verður friður um þetta kerfi, hvorki um tilvist þess né um hverjir teljist verðugir styrk- eða launþegar.
Í samræmi við tíðarandann kemur ekki á óvart að pendúllinn sveiflist nú til þeirrar áttar að lýðræðislega kjörnir fulltrúar eigi að hafa meiri bein áhrif á ráðstöfun fjármuna til menningar og lista. Útilokunarhyggjan til vinstri ýtir undir elítumyndun, útilokunarhyggjan til hægri beinist gegn sjálfskipuðum elítum.
Tilly Norwood, fyrsta vitvélin í gervi leikkonu.
Viðfangsefni þeirra sem hafa auga á þróun menningar og lista ættu að vera önnur á líðandi stundu. Í kvikmynd um keppnina milli Edisons og Westinghouse um innleiðingu rafmagns í Bandaríkin undir lok 19. aldar erum við minnt á byltinguna sem varð við það. Sumir líkja innleiðingu vitvélanna (gervigreindar) við þá byltingu: Fyrsta vitvélin í gervi leikkonu hefur nú litið dagsins ljós í Hollywood, Tilly Norwood.
Danskir fræðimenn benda á að tími bókarinnar sem hófst með Gutenberg árið 1500 hafi staðið í um 500 ár. Með internetinu og vitvélunum séum við smám saman að komast aftur í ástand sem líkist því sem var fyrir nútímann: Þekking fljóti nú aftur um sem sameiginlegur, endalaus straumur mynda og orða.