15.3.2021 9:51

Vegið að verslun í Rangárþingi

Samkeppniseftirlitið vill greinilega að horfið sé aftur til þess tíma þegar kaupfélag framsóknarmanna var á Hvolsvelli og sjálfstæðismanna á Hellu.

Um langt skeið var baráttumál sveitarstjórnar Rangárþings eystra að svonefnd lágvöruverslun yrði rekin á Hvolsvelli. Í apríl 2018 var verslun Krónunnar opnuð þar og er enn rekin með glæsibrag þrátt fyrir umskipti í viðskiptum við ferðamenn sem sett hafa mikinn svip á Hvolsvöll undanfarin ár en hurfu þaðan eins og frá öðrum stöðum hér vegna heimsfaraldursins.

KrindexVerslun Krónunnar á Hvolsvelli.

Undanfarin ár hefur verið vegið að starfsemi Krónunnar á Hvolsvelli af samkeppniseftirlitinu. Í frétt Morgunblaðsins í morgun (15. mars) er þessi saga rakin:

„Samkeppniseftirlitið samþykkti samruna N1 og Festar, undir merkjum síðarnefnda félagsins, í sumarlok 2018 en setti þó ýmis skilyrði, sem áttu að vernda virka samkeppni á eldsneytis- og dagvörumörkuðum. Eitt af því var að selja Kjarvalsbúð fyrirtækisins á Hellu. Festi rekur einnig Krónuverslun á Hvolsvelli og til vara hefur verið opnað á að selja megi hana í stað Kjarvals á Hellu, en samkeppnisyfirvöld telja og segja að samruninn á sínum tíma dragi úr virkri samkeppni á Hvolsvelli og Hellu. Er þess því krafist að Festi minnki umsvif sín á svæðinu.“

Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður segir einnig í frétt sinni:

„Vorið 2019 var kominn á samningur um kaup heimamanns í Rangárþingi á búðinni á Hellu, en þegar á reyndi vildi sveitarfélagið, Rangárþing ytra, sem á verslunarhúsið við Suðurlandsveg, ekki framselja leigusamninginn til viðkomandi. Nokkru seinna ætlaði Samkaup að kaupa rekstur Krónunnar á Hvolsvelli og setja undir sitt merki. Þá kom afsvar frá Rangárþingi eystra, sem á húsnæði verslunarinnar, sem vildi ekki ljá Samkaup það. Þá var þriðja atrennan gerð, um sölu til Sigurðar Elíasar [Guðmundssonar, hóteleiganda og verslunarmanns í Vík í Mýrdal], og samningur undirritaður í nóvember síðastliðnum. Ekkert verður hins vegar, sem fyrr segir, af sölunni eftir niðurstöðu Samkeppniseftirlits.“

Viðbára eftirlitsins er meðal annars að Sigurður Elías hafi ekki nægan fjárhagslegan styrk og sé háður og hagsmunatengdur Festi þar sem hann hefur verið lengi umboðsmaður N1 á Vík.

Allt er þetta með nokkrum ólíkindum. Þegar Krónu-verslunin var opnuð á Hvolsvelli brugðu viðskiptavinir þar sér til Reykjavíkur til að kanna hvort sama verð væri á varningi hjá Krónunni þar og á Hvolsvelli og reyndist svo vera. Að það skaði hag íbúa í Rangárþingi að Krónan starfi bæði á Hellu og Hvolsvelli er einfaldlega misskilningur starfsmanna samkeppniseftirlitsins, einhver skrifborðsfræði sem standast ekki skoðun.

Samkeppniseftirlitið vill greinilega að horfið sé aftur til þess tíma þegar kaupfélag framsóknarmanna var á Hvolsvelli og sjálfstæðismanna á Hellu. Það var að vísu á tíma verðlagshafta og ofstjórnar verðlagsráðs sem hvarf fyrir tæpum 30 árum þegar samkeppniseftirlitið kom til sögunnar. Að nú ætli starfsmenn þess að færa klukkuna til baka og telji sig þjóna hagsmunum neytenda sýnir að minnsta kosti skort á meðalhófi svo að ekki sé meira sagt.