11.1.2023 10:40

Vegið að trausti banka

Eins og áður er mest í húfi fyrir Íslandsbanka og framtíð hans í þessu máli. Að vega að trausti í garð banka getur verið dýrkeypt eins og dæmin sanna.

Víða varð uppi fótur og fit þegar Íslandsbanki birti kauphallartilkynningu síðdegis mánudaginn 9. janúar um að bankinn hefði fengið í hendur frummat fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (FME) vegna athugunar á framkvæmd Íslandsbanka hf. á útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka sem fram fór hinn 22. mars 2022. Í matinu kæmi m.a. fram að FME teldi að bankinn kynni að hafa brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga og reglna um bankann og starfsemi hans.

FME benti bankanum að tvær leiðir væru til að ljúka málinu: stjórnvaldssekt eða sátt um greiðslu sektar. Valdi bankinn sáttaferlið og sagði það hafið. Jafnframt kom fram að stjórnendur bankans tækju frummat FME alvarlega.

Allir sem þekkja til starfa FME eða hafa kynnt sér lögin um FME vita að þessar tvær leiðir eru fyrir hendi: að FME sekti eða máli ljúki með sátt.

Að kvöldi mánudagsins tókst fréttastofu ríkisútvarpsins þó að finna einn fjármálafræðing sem hafði aldrei heyrt um slíkt „sáttaferli“, dr. Ásgeir Brynjar Torfason. Sló fréttastofan því upp í fyrirsögn að Ásgeir Brynjar kannaðist ekki við að hafa heyrt orðið „sáttaferli“ notað um eftirlit fjármálaeftirlitsins með bankastarfsemi.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hélt sig á gruggugu vatni þegar rætt var við hana á visir.is þriðjudaginn 10. janúar. Hún sagði að Íslandsbanki væri „aðeins að matreiða hlutina ofan í okkur af því að við höfum enn ekki fengið að sjá neitt frá fjármálaeftirlitinu varðandi það hvaða lög voru brotin eða með hvaða hætti“. Þá sagði þingmaðurinn, sem einnig er lögmaður: „Þetta er tilkynning í rauninni um væntanleg viðurlög skilurðu, þetta er í rauninni ekki sáttameðferð heldur bara verið að tilkynna.“

Íslandsbanka var skylt að senda tilkynningu sína í Kauphöllina vegna niðurstöðu FME, bankinn kýs að bregðast við ásökun um lögbrot með sátt frekar en að fá á sig sektargerð. Upplýsingar skortir um hvort bankinn viðurkenni sekt.

1338075Tvær opinberar eftirlitsstofnanir hafa fjallað um söluna á hlutnum í Íslandsbanka 22. mars 2022. Ríkisendurskoðun bendir ekki á nein lögbrot á því sviði sem hún rannsakaði. Fjármálaeftirlitið gefur til kynna að Íslandsbanki hafi brotið lög og annað hvort verði hann sektaður einhliða eða geti samið um greiðslu sektar og valdi bankinn þá leið.

Þetta er í sjálfu sér ekki flókið þótt stjórnarandstaðan og fréttastofa ríkisútvarpsins vilj flækja málið.

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í grein á visir.is miðvikudaginn 11. janúar „aumt“ að málflutningur stjórnarandstöðunnar virðist ganga út á það eitt í þessu máli að slá ryki í augu fólks. Allt frá því í vor hafi „gífuryrði yfirtekið alla skynsama umræðu um málið“ vonbrigði margra þingmanna stjórnarandstöðunnar hafi verið „nánast áþreifanleg ... þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar var ekki dramatískari“. Nú eigi að láta eins og ferlið milli fjármálaeftirlitsins og Íslandsbanka „hafi eitthvað að gera með aðgerðir og umræðu ráðherra eða annarra stjórnarliða, þvert á hið rétta“.

Eins og áður er mest í húfi fyrir Íslandsbanka og framtíð hans í þessu máli. Að vega að trausti í garð banka getur verið dýrkeypt eins og dæmin sanna.