14.3.2024 9:27

Vegið að sjálfstæði sveitarfélaga

Með flutningi grunnskólans var alls ekki komið á nýju stjórnsýslustigi, milli ríkis og sjálfstæðra sveitarfélaga. 

Mikið var látið með það víða fyrir nokkrum misserum þegar Heiða Björg Hilmisdóttir, fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar og núverandi varaoddviti flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, náði kjöri sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Um langt árabil höfðu sjálfstæðismenn stýrt þessum samstarfsvettvangi sveitarfélaganna á farsælan hátt.

Nú liggur fyrir að við gerð kjarasamninga hefur Heiða Björg brugðist trúnaði sveitarstjórnarmanna eins og lýst er í grein 27 sveitarstjóra og oddvita Sjálfstæðisflokksins í Morgunblaðinu í dag (14. mars). Þar segir meðal annars:

„Því var treyst að formaður myndi starfa samkvæmt eindregnum vilja sveitarstjórna og bókun stjórnar og myndi upplýsa aðila vinnumarkaðarins og forsætisráðherra um stöðuna með skýrum hætti. Ljóst er að svo var ekki.“

Hér er um að grundvallarmál að ræða sem snýr að hlutverki Sambands ísl. sveitarfélaga. Fyrir rétt rúmum tveimur vikum, eða 26. febrúar, kynnti Heiða Björg fyrst hugmyndir um gjaldfrjálsar skólamáltíðir á fundi tæplega 50 sveitarstjóra, bæjarstjóra og borgarstjóra. Segir í nefndri grein að það hafi komið „flestum á fundinum í opna skjöldu að sveitarfélögin væru skyndilega orðin lykilbreyta í kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði og með þessum hætti“.

Sambandid_merki_rett

Þá segir:

„Afstaða fulltrúa sveitarfélaga á þeim fundi var mjög skýr, andstaðan var nánast einróma og einskorðaðist ekki bara við Sjálfstæðisflokkinn. Enda lá fyrir að hér væri ráðskast með sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga er snýr að mikilvægri þjónustu, eins og skólamáltíðum.“

Ástæða er til að rifja upp að við flutning grunnskólans til sveitarfélaganna fyrir tæpum 30 árum var þess sérstaklega gætt við lagasetningu að Samband íslenskra sveitarfélaga færi ekki með málefni sem vörðuðu fleiri en eitt sveitarfélag heldur hefði frumkvæði að lausn málefna grunnskólans sem vörðuðu fleiri en eitt sveitarfélag og ekki væri skipað með öðrum hætti í lögum, reglugerðum eða með samkomulagi aðila. Vitað væri hvar komast mætti að lokaniðurstöðu um slík mál, ef ekki næðist samkomulag annars staðar en á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Þarna var um viðkvæmt mál að ræða með tilliti til sjálfstæðis sveitarfélaga og spurninga um það hvort einhver annar en þau sjálf, hvert og eitt, gætu tekið á málum sem þessum. Með flutningi grunnskólans var alls ekki komið á nýju stjórnsýslustigi, milli ríkis og sjálfstæðra sveitarfélaga. Þá var jafnframt samið af nákvæmni um skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga og skýra verkaskiptingu í samræmi við það.

Heiða Björg Hilmisdóttir hefur virt þetta allt að vettugi. Hún vegur að sjálfstæði sveitarfélaga. Brýtur gegn vilja umbjóðenda sinna. Stuðlar að einhliða röskun á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Allt þetta gerir hún í trássi við niðurstöðu fundar með fulltrúum sveitarfélaganna.

Landsþing sveitarfélaganna fer fram í Hörpu í dag. Heiða Björg hlýtur þar að skýra frá því hvort hún líti á Samband ísl. sveitarfélaga sem þriðja stjórnsýslustigið þar sem hún geti brotið gegn sjálfstæði sveitarfélaga.