Vegið að ríkisendurskoðun
Krafa þingmannsins er með öðrum orðum sú að alþingi samþykki að vega að sjálfstæði ríkisendurskoðunar til að þjónusta fjárfesta sem telja að þeir hafi verið hlunnfarnir.
Ríkisendurskoðun birti yfirlýsingu um eigið sjálfstæði á vefsíðu sinni föstudaginn 3. mars. Þar er skýrt frá störfum setts ríkisendurskoðanda, Sigurðar Þórðarsonar, við eftirlit með störfum Lindarhvols frá 19. september 2016 til 1. maí 2018 vegna vanhæfis þáverandi ríkisendurskoðanda. Skilaði Sigurður samnatekt um störf sín „til að tryggja að starfsfólk embættisins gæti sett sig inn í verkefnið með skjótum hætti og lokið því, enda lá fyrir að settur ríkisendurskoðandi hafði ekki lokið við úttektina,“ segir ríkisendurskoðun sem gaf út skýrslu um Lindarhvol í apríl 2020. ,, [En] einungis sú skýrsla hefur að geyma endanlega úttekt og niðurstöður embættisins hvað málefnið varðar,“ segir enn fremur í yfirlýsingu ríkisendurskoðunar frá 3. mars.
Vegna þessarar samantektar setts ríkisendurskoðanda hefur orðið mikið fjaðrafok. Embættið sem ber ábyrgð á málinu telur þetta „vinnuskjal“ sem geymi upplýsingar, settar fram án þess að gætt hafi verið að lögbundnum málsmeðferðarreglum og með birtingu þess „væri verið að setja varasamt fordæmi sem kynni að vega að sjálfstæði embættisins“. Ríkisendurskoðun telur sjálfstæði sitt með öðrum orðum í húfi.
Til að tryggja þetta sjálfstæði og styrkja stöðu alþingis til eftirlits með framkvæmd fjárlaga og fjárreiðum ríkisins var ríkisendurskoðun gerð að sjálfstæðri stofnun á vegum alþingis með lögum frá 1986.
Ríkisendurskoðun lét þess getið að sjónarmiðum hennar um vinnuskjalið hefði áður verið komið til alþingis með formlegum hætti. Greinilegt er að sumir þingmenn ætla ekki að virða kröfu ríkisendurskoðunar um sjálfstæði hennar. Miðvikudaginn 1. mars óskaði Jóhann Páll Jóhannsson, Samfylkingu, eftir atkvæðagreiðslu á þingi um að sér yrði svarað um það sem stóð í samantekt Sigurðar Þórðarsonar. Málið snerist um það að „hlutur ríkisins í Klakka“ hefði verið seldur á undirverði.
Krafa þingmannsins er með öðrum orðum sú að alþingi samþykki að vega að sjálfstæði ríkisendurskoðunar til að þjónusta fjárfesta sem telja að þeir hafi verið hlunnfarnir.
Árið 2011 breyttist Exista í Klakka og nú sækja gamlir Exista-menn á ríkið vegna sölu Lindaehvols á Klakka.
Klakki var þekkt sem Exista þangað til að ákveðið var á hluthafafundi að breyta um nafn í september 2011. Sigurður Valtýsson, fyrrverandi forstjóri Exista, er nú fyrirsvarsmaður Frigusar II sem er í málaferlum fyrir héraðsdómi Reykjavíkur vegna sölu Lindarhvols á Klakka. Gamlir Exista-menn hafa með öðrum orðum áhuga á að hnekkja sölunni á Klakka og í tengslum við málaferlin hafa orðið þessar botnlausu umræður um samantekt Sigurðar Þórðarsonar.
Af hálfu stjórnarandstæðinga á þingi og álitsgjafa er árásin á sjálfstæði ríkisendurskoðunar færð í þann búning að þeir séu að gæta hagsmuna almennings gegn leyndarhyggju Birgis Ármannssonar, forseta alþingis, og Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.
Þetta er alrangt af tveimur ástæðum: (1) Ríkisendurskoðun telur sjálfstæði sitt í húfi og verst af hörku. (2) Umræðunum ráða ekki almannahagsmunir heldur hreinir sérhagsmunir fjárfesta sem stjórnarandstaðan kýs að styðja.