17.10.2025 9:59

Vegið að frjálsri fjölmiðlun

Dregið skal í efa að sífellt meira pólitískt og fjárhagslegt dekur við ríkisútvarpið sé til þess fallið að styrkja fréttamiðlun á landsbyggðinni.

Sigurjón Þórðarson og þingmenn Flokks fólksins náðu sínu fram á alþingi fimmtudaginn 16. október. Stuðningur við fjölmiðla Árvakurs og Sýnar var lækkaður, að sögn í þágu fréttamiðlunar á landsbyggðinni.

Sigurjón krafðist afnáms opinbers stuðnings við Morgunblaðið vegna frétta þess um að Flokkur fólksins ætti yfir höfði sér að verða af 240 milljóna króna ríkisstyrk vegna slóðaskapar og vanvirðingar við opinberar reglur – ef ekki hreinna lögbrota. Inga Sæland flokksformaður og gullkistuvörður flokksins sakaði blaðið um falsfréttir. Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra Viðreisnar bjargaði Flokki fólksins frá gjaldþroti. Nú kemur samfylkingarmaðurinn Logi Einarsson fjölmiðlaráðherra rétt Flokki fólksins þessa dúsu. Stjórninni er borgið.

Sama dag og við blasti að þetta frumvarp yrði samþykkt breytti Sýn afkomuspá sinni. „Skortur á raunhæfum aðgerðum stjórnvalda til að jafna samkeppnisstöðu einkarekinna miðla heldur áfram að veikja rekstrarumhverfi þeirra,“ sagði félagið í svartri tilkynningu sinni.

Sýn vísar ekki aðeins til beins fjárstuðnings úr ríkissjóði heldur einnig hins hvernig þingmenn hlaða undir ríkisútvarpið.

Dregið skal í efa að sífellt meira pólitískt og fjárhagslegt dekur við ríkisútvarpið sé til þess fallið að styrkja fréttamiðlun á landsbyggðinni.

Stöð 2, nú Sýn, hefur löngum verið með mun öflugri landsbyggðarfréttir en ríkisútvarpið og þar hafa starfað fréttamenn sem eru mun betur að sér um lífið á landsbyggðinni en þeir sem starfa á ríkisstöðinni. Að veikja Sýn og hampa landsbyggðarstuðningi er hræsni þótt staðbundnir landsbyggðarmiðlar séu alls góðs maklegir.

Screenshot-2025-10-17-at-09.56.23Frétt um Kastljósið sem olli þáttaskilum í bensínstöðvamálinu.

Nú liggur fyrir opinber skýrsla, samfelldur áfellisdómur innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar, um hve illa Dagur B. Eggertsson, þáv. borgarstjóri, stóð að samningum um ráðstöfun á bensínstöðvalóðum í borginni.

Í fjölmiðlaljósi má rifja upp að 6. maí 2024 birtist Kastljós í ríkissjónvarpinu sem María Sigrún Hilmarsdóttir fréttamaður vann. Hratt birting þess af stað atburðarás sem leiddi til þeirrar skýrslu sem nú hefur verið birt.

Það var hins vegar ekki þrautalaust fyrir Maríu Sigrúnu að fá vel unnið efni sitt birt. Við vinnslu þess var hún í teymi rannsóknarfréttamanna sem sá um þáttinn Kveik. Ritstjóri Kveiks neitaði hins vegar að birta efnið í þættinum, fréttastjórinn og útvarpsstjórinn stóðu með honum. Var Maríu Sigrúnu vikið úr rannsóknarteyminu!

Fyrir harðfylgi Maríu Sigrúnar gagnvart yfirboðurum hennar birtist efnið í Kastljósi. Síðan setti yfirstjórn ríkisútvarpsins af stað rannsókn vinnustaðafræðinga sem tók marga mánuði. Var það greinilegt yfirklór því að fréttamat ræðst ekki af skoðunum þeirra.

Það er í skjóli þeirrar afstöðu þingmanna til fjölmiðlunar sem samþykkt á styrkveitingamálinu 16. október 2025 lýsir sem ríkisútvarpið gengur fram á þann hátt sem hér er lýst. Í þessu skjóli þrífst þöggunin vegna byrlunarmálsins og ítrekuð dæmi um hlutdræga afstöðu til manna og málefna. Með því að veikja miðla Árvakurs og Sýnar vilja Logi og félagar gera RÚV enn þóknanlegra.