Vegið að dómsmálaráðherra
Er tilviljun að reynt sé að grafa undan tiltrú á dómsmálaráðherra og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þegar stórrannsókn fer fram á skipulagðri glæpastarfsemi?
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra vakti máls á því í grein í Morgunblaðinu föstudaginn 26. febrúar að skipulögð brotastarfsemi hefði færst í aukana hér á landi á síðustu árum. Að mati lögreglunnar væru nú starfandi 15 hópar í landinu sem flokka mætti sem skipulagða brotahópa. Margir þeirra stunduðu löglegan rekstur af ýmsu tagi samhliða lögbrotunum. Löglega starfsemin væri nýtt til að þvætta fjármuni eða til að stuðla að frekari glæpum. Hóparnir væru af ýmsu þjóðerni og störfuðu flestir bæði innanlands og utan.
Ráðherrann minnti á að haustið 2020 hefði hún falið „ríkislögreglustjóra að efla samstarf og samhæfingu innan lögreglu í því skyni að vinna markvisst gegn skipulagðri brotastarfsemi“. Þetta væri gert með samhæfingu aðgerða, auknu samstarfi á milli lögregluembætta, alþjóðlegri samvinnu og gagnkvæmu samstarfi við önnur stjórnvöld og stofnanir. Þá hefði 350 milljónum króna verið ráðstafað í sérstakan löggæslusjóð til að efla lögregluna í aðgerðum gegn skipulagðri brotastarfsemi.
Sagði dómsmálaráðherra brýnt að íslenska lögreglan – og í raun íslenska réttarkerfið – hefði burði, getu og þekkingu til að takast á við flókin verkefni vegna harðnandi heims skipulagðrar glæpastarfsemi. Þetta verkefni yrði að nálgast af alvöru og festu.
Þarna fer ekkert á milli mála. Greinin er í senn upplýsandi fyrir almenning og hvatning til lögreglu sem nýtur óskoraðs stuðnings ráðherrans sem ber pólitíska ábyrgð á störfum hennar. Greinin birtist þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu glímir við að upplýsa Rauðagerðismálið svonefnda, morðmál þar sem fjöldi manna er settur í gæsluvarðhald.
Á sama tíma og þetta gerist blæs fréttastofa ríkisútvarpsins lífi í tveggja mánaða gamalt sóttvarnamál til að koma höggi á Áslaugu Örnu vegna tveggja símtala hennar við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadag.
Eftir að fréttastofan gaf upp boltann gripu Píratar og Samfylking hann á lofti, nú síðast Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Ráðherrann og lögreglustjórinn sátu fyrir svörum í þingnefnd mánudag og þriðjudag án þess að píratar fengju kjöt á beinið. Í dag (3. mars) skrifar svo fulltrúi Pírata í hópi leiðarahöfunda Fréttablaðsins aðdróttanir um trúverðugleika ráðherrans og lögreglunnar.
Er tilviljun að reynt sé að grafa undan tiltrú á dómsmálaráðherra og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þegar stórrannsókn fer fram á skipulagðri glæpastarfsemi?
Ófá ár eru síðan snúist var gegn þáverandi dómsmálaráðherra með heilsíðuauglýsingum í blöðum rétt fyrir kjördag og kjósendur hvattir til að strika yfir nafn hans á atkvæðaseðli. Þetta gerði sá sem sætt hafði rannsókn lögreglu og vildi hlutast til um hverjir stjórnuðu rannsókn sakamála.
Upphrópanir um spillingu heyrast úr óvæntum áttum þegar dregur að kosningum og spjótunum er beint gegn þeim sem ganga ekki spillingu á hönd. Fjölþátta ógnir að samfélagi okkar eru ekki allar að utan. Þær má rekja til ólíklegustu staða innan lands.