18.12.2019 11:39

Veganistar amast við hestvagni

Sagði bæjarstjórinn að takmörkun á ferðum hestvagnsins laugardaginn 14. desember hefði verið málamiðlun af hálfu bæjaryfirvalda og hún gilti aðeins þennan eina dag.

Fréttavefurinn Mbl.is greindi frá því að morgni laugardags 14. desember að Bettinu Wunsch hefðu verið settar nýjar reglur um ferðir hestvagns í tengslum við jólaþorpið í Hafnarfirði.

Á það var bent í fréttum um málið að í vegan-lífstíl eða grænkera-lífstíl fælist andstaða við dýr væru „notuð manninum til hagsbóta“ eins og það var orðað á einum stað. Þá væru margir grænkerar „andstæðir dýrahaldi eða notkun mannfólks á dýrum“.

Strax og þetta hafði birst á mbl.is loguðu samfélagsmiðlar til stuðnings Bettinu. Klukkan 12.55 birti Vegan búðin við Strandgötu í Hafnarfirði yfirlýsingu á Facebook, þar sem sagði:

„[E]ftir fjölda áskorana frá viðskiptavinum og grænkerum komu eigendur Vegan búðarinnar athugasemdum á framfæri við Hafnarfjarðarbæ sem að eigin frumkvæði breytti áætlunum hestvagnsins.

Það að vera vegan og hafa skoðun á framkomu við dýr, mennsk og ómennsk þýðir ekki að það sé verið að hatast út í þau sem halda dýr. Það að vera ósátt við kerfið og hvernig hlutunum hefur verið og er enn háttað hefur ekkert að gera með fólk sem elskar hestana sína. Það að óska þess að dýr verði ekki framar notuð í afþreyingarskyni er skoðun sem komið var á framfæri. Engir einstaklingar hafa verið sakaðir um dýraníð og ekkert þeirra sem lýsti skoðun sinni á þessari venju efast um góðvild hesteigandans eða vilja hennar til að hugsa vel um dýrin sín.“

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, sagð í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni, mánudaginn 16. desember:

„Við fengum fyrir nokkrum dögum, bæjaryfirvöld, mjög alvarlegar athugasemdir vegna þessa máls, um starfsemi í kringum þessa hestvagna og að veganistar gerðu alvarlegar athugasemdir við að bærinn væri að leyfa þetta í kringum jólaþorpið. Okkar skylda, miðað við eðli málsins og miðað við hversu alvarlegar athugasemdirnar voru, þá ber okkur auðvitað skylda til að ræða við hlutaðeigandi og fara yfir málin."

Sagði bæjarstjórinn að takmörkun á ferðum hestvagnsins laugardaginn 14. desember hefði verið málamiðlun af hálfu bæjaryfirvalda og hún gilti aðeins þennan eina dag.

He4wstJólahestvagninn í Hafnarfirði . (Mynd: Hestvagnar á Íslandi.)

Bettina Wunsch sagði það sárast fyrir sig að sitja undir ásökunum um að hún færi illa með hestana sína með því að láta þá standa í frosti í gerði við Jólaþorpið eða ganga jafnan sömu leið eftir Strandgötunni. Ekkert væri henni ofar í huga en sinna hestum sínum af kostgæfni.

Þetta mál er aðeins eitt dæmi um hvernig leitast er við að setja hömlur við því sem til þessa hefur talist eðlilegt og sjálfsagt, að beita hestum fyrir vagn eða leyfa þeim að vera utan dyra í köldu veðri. Hafi þeir nóg að éta hreyfa þeir sig almennt ekki mikið frá heyrúllunni.

Að sjálfsögðu ber að virða rétt og tilfinningar þeirra sem vilja ekki að dýr séu notuð „í afþreyingarskyni“ eins og það er orðað í yfirlýsingu Vegan búðarinnar. Öllu eru þó takmörk sett. Hugsanlega kemur til mótmæla við hesthúsabyggðir víða um land, helstu „afþreyingarmiðstöðvar“ hestamanna?

Í raun er þetta angi af afstöðu sem birtist til dæmis í andstöðu við að lagðar séu viðunandi línur um landið til flutnings eða dreifingu á rafmagni. Þegar forystumenn Landverndar segja að það þurfi ekki fleiri línur heldur beri að slökkva á stóriðjunni minna þeir á viðskiptavini Vegan búðarinnar í Hafnarfirði sem vilja banna hestvagn svo að þeir geti notið þess að versla í búðinni.