24.3.2020 10:38

Veðurstofan 100 ára

Þetta er einstaklega vel gerð og fróðleg mynd sem sýnir að Veðurstofan sinnir mun víðtækara verkefni en nafn hennar gefur til kynna.

Alþjóðlegi veðurdagurinn var í gær, mánudaginn 23. mars. Í tilefni dagsins sýndi ríkissjónvarpið heimildarmyndina Á vaktinni í 100 ár um starfsemi Veðurstofunnar. Kvikmyndagerðarfólkið Valdimar Leifsson og Bryndís Kristjánsdóttir fylgdu starfsfólki Veðurstofunnar eftir í eitt ár og gerðu heimildarmyndina um fjölbreytt störf þess en Veðurstofan fagnar 100 ára afmæli í ár.

Þetta er einstaklega vel gerð og fróðleg mynd sem sýnir að Veðurstofan sinnir mun víðtækara verkefni en nafn hennar gefur til kynna. Hér er um að ræða hátækniþróaða rannsókna- og vísindastofnun. Á vefsíðu hennar er starfseminni lýst á þennan hátt:

„Veðurstofan stuðlar að bættu öryggi almennings, eigna og innviða gagnvart öflum náttúrunnar jafnframt því að styðja sjálfbæra nýtingu hennar og samfélagslega hagkvæmni. Því sinnum við með vöktun lofts, láðs og lagar, byggðri á öflun, varðveislu og greiningu gagna, rannsóknum, þróun og miðlun upplýsinga.

„Viðfangsefni Veðurstofu Íslands eru eðlisþættir jarðar, þ.e. loft, vatn, snjór og jöklar, jörð og haf. Unnið er að fjölbreyttum verkefnum sem tengjast meðal annars veðri, hafís, mengun, ofanflóðum, jarðskjálftum, eldvirkni, hniki á yfirborði jarðar, vatnafari, jöklabúskap, hlaupum og flóðum.“

Veðurstofan er til húsa á svonefndri Veðurstofuhæð við Bústaðarveg en Reykjavíkurborg hefur samið við ríkið um afnot af landi þar. Veðurstofunni hefur verið tryggður framtíðarreitur til rannsókna efst á svonefndri Litlu Öskjuhlíð, það er fyrir norðvestan stóran kaldavatnstank á hlíðinni. Rétt þar sem afgirtur rannsóknarreitur Veðurstofunnar verður stóð áður Golfskálinn þegar golfvöllur var fyrir norðan heitavatnsstokkinn í Kringlumýrinni.


IMG_1008Myndin er tekin frá stað sem verður helgaður rannsóknum Veðurstofunnar.

Í hlíðinni fyrir sunnan svæðið sem er helgað rannsóknum Veðurstofunnar ætlar Reykjavíkurborg að reisa 5 smáhýsi, hvert allt að 35 fermetrum að stærð. Húsin eru „búsetuúrræði“ fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Þeir sem standa að hugmyndinni um smáhýsin hafa vafalaust rýnt í mælingar Veðurstofunnar á styrk suðaustan slagviðris á þessum stað. Víst er að nokkur spölur er fyrir skjólstæðinga velferðarsviðsins í alla almenna þjónustu frá smáhýsunum væntanlegu. Annað hvort ræður ríkt hugmyndaflug eða brýnn lóðaskortur þessari skipulagsákvörðun Reykjavíkurborgar.

Skammt frá væntanlegum smáhýsum er bygging sem meðal annars hýsir ofurtölvu frá Danmörku sem nýtist til veðurrannsókna. Í heimildarmyndinni sagði að tölvuna ætti að endurnýja innan fárra ára. Henni fylgir meðal annars mikill kælibúnaður utan dyra við bygginguna.

Þarna á Veðurstofuhæðinni verður hátækni- og rannsóknasvæðið sífellt mikilvægara. Það er í hæfilegri fjarlægð frá Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands. Veðurstofan er alþjóðleg rannsóknamiðstöð sviði sem verður sífellt mikilvægara. Allar ákvarðanir um framtíð Veðurstofunnar og aðsetur hennar hljóta að taka mið af því.

Hér fyrir neðan eru tvær myndir sem sýna svæðið þar sem ætlunin er að „búsetuúrræði“ skjólstæðinga velferðarsviðs Reykjavíkurborgar verði skammt fyrir vestan Veðurstofuna. Rétt er að gámarnir á myndunum eru ekki „búsetuúrræði“.

IMG_1044IMG_1046