27.8.2023 9:54

Veðrabrigði í stjórnarsamstarfi

Ræður Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á fundum flokksráða sinna undir vikulokin báru veðrabirgðunum skýran vott. 

Hér var því haldið fram fyrr í sumar að vænta mætti veðrabrigða í samstarfi þriggja flokka stjórnar Katrínar Jakobsdóttur síðsumars þegar stjórnmálaflokkar og forystumenn þeirra tækju til við hauststörfin. Aldrei var þó spáð að upp úr slitnaði enda er enginn annar kostur í stöðunni vilji alþingismenn stuðla að stöðugleika og jafnvægi í þjóðfélaginu. Það steðjar ekki heldur að neinn vandi sem krefst nýrra pólitískra úrræða. Hagvöxtur er góður, atvinnuleysi lítið, ríkissjóður styrkist meira og hraðar en vænst var. Verðbólga er umfram það sem að var stefnt en það hvílir á Seðlabanka Íslands, sjálfstæðri stofnun án afskipta stjórnmálamanna, að leggja línur í verðbólgustríðinu og það gerir hann með vaxtahækkunum til að minnka þenslu í hagkerfinu.

Ræður Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á fundum flokksráða sinna undir vikulokin báru veðrabirgðunum skýran vott. Samhliða því sem þessir burðarásar stjórnarsamstarfsins áréttuðu vilja sinn til að ljúka kjörtímabilinu saman í ríkisstjórn var sérstaða flokka þeirra og hugmyndafræðilegur ágreiningur áréttaður á skýrari hátt en gert hefur verið síðan flokkarnir hófu samstarf eftir kosningar 2017.

371523541_796550548876054_1447841444571487397_nFrá flokksráðsfundinum 25. ágúst 2023 (mynd Facebook/Drífa Hjartardóttir).

Þetta var tímabær áminning um að í samsteypustjórnum er óhjákvæmilegt að ná málamiðlunum og stýra málum á þann veg að ekki skerist svo í odda að samstarf sé ógjörlegt. Bjarni Benediktsson sagði í ræðu sinni:

„Það er oft þannig að samstarfið getur tekið á. Það getur verið erfitt. Ég heyri jafnvel talað um að það sé orðið þreytt. En þó við verðum stundum þreytt. Þó hlutirnir taki á. Þá gefumst við ekki upp. Það er einfaldlega ekki í boði að gefast bara upp.“

Undir þetta tók flokksráðsfundurinn í ályktun sinni. Það er engin uppgjöf í sjálfstæðismönnum. Þvert á móti má sjá í ýmsum málaflokkum að þeir eru í vaxandi mæli að taka dagskrárvaldið í sínar hendur. Hér skal nefnt tvennt því til staðfestingar.

1. Útlendingamálin. Dregnar eru skýrari línur en áður. Samþykkt lagabreytinga á liðnum vetri sýnir hvar mörkin eru dregin. Þeir sem brjóta útlendingalögin verða að taka afleiðingum þess. Sé félagslega öryggisnetið ekki nægilega þéttriðið verður að styrkja það enda vilji þeir sem njóta þess eiga samstarf við stjórnvöld. Þetta eru engir afarkostir.

2. Borgarlína. Bjarni Benediktsson vill ekki að haldið sé áfram með það verkefni á grundvelli svonefnds höfuðborgarsáttmála sem er orðinn að botnlausri hít eins og flest annað þar sem meirihluti Samfylkingarinnar í borgarstjórn kemur að meðferð opinberra fjármuna.

Þetta eru tvö stórmál sem verður að leiða til lykta sé vilji til þess að hefta streymi opinberra fjármuna.

Fyrir flokksráðsfund sjálfstæðismanna börðu svonefndir fullveldissinnar sér á brjóst og veittust sérstaklega að Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra og varaformanni flokksins. Allt það sem þeir ætluðu sér varð að engu á flokksráðsfundinum eins og síðar verður rakið.