5.3.2024 9:41

Vébönd alþingis rofin

Ein af þversögnum þess sem nú gerist hér á landi er að það er talið undirrót vaxandi spennu í samfélaginu að þeir sem standa vörð um véböndin og frelsið innan þeirra vegi að friði í samfélaginu.

Með orðinu vébönd er átt við bönd kringum helgan stað þar sem dómari átti sitt sæti og réttur var haldinn. Í Egils sögu er véböndum á Gulaþingi í Noregi lýst þannig (57. kafli): „En þar er dómurinn var settur var völlur sléttur og settar niður heslistengur í völlinn í hring en lögð um utan snæri umhverfis. Voru það kölluð vébönd.“

Hér að ofan er vitnað í texta á Vísindavef Háskóla Íslands eftir Guðrúnu Kvaran. Frá alda öðli hafa norrænir menn talið þingstaði innan vébanda. Þar væru menn vopnlausir og virtu leikreglur hvort sem þeir sætu sjálfir á þingi eða væru áheyrendur. Jafnframt er það hluti þjóðlegs norræns arfs og menningar að allt sem gerist á þingi sé í heyranda hljóði, það er að öðrum viðstöddum.

Þetta er grunnþáttur opinna, lýðræðislegra samfélaga sem víða er vegið að með vopnum enda falla stjórnarhættir þeirra ekki að skoðunum þeirra sem aðhyllast alræði í einni mynd eða annarri. Klerkaveldi múslíma í Írak, fjölskyldueinræðið í N-Kóreu, kommúnistastjórnin í Kína og þjófræði öryggislögreglunnar í Rússlandi hafa sameinast í andstöðu sinni við opin samfélög samtímans.

Þegar vébönd alþingis voru rofin af erlendum manni sem hékk utan á þingpöllunum í gær (4. mars) bar það vott um algjört og raunar óhugsandi virðingarleysi fyrir störfum þingsins, allt annan menningarheim. Vissulega hafa gestir á þingpöllum haft uppi háreysti, gripið til lófataks og annars til að draga að sér athygli og ögra þingheimi en þetta sem gerðist 4. mars er einsdæmi.

Screenshot-2024-03-05-at-09.40.31

Ein af þversögnum þess sem nú gerist hér á landi er að það er talið undirrót vaxandi spennu í samfélaginu að þeir sem standa vörð um véböndin og frelsið innan þeirra vegi að friði í samfélaginu.

Sótt er að stjórnvöldum með kröfum um að sækja fólk til Gaza og þegar þau virða löglegar leiðir fara einstaklingar í nafni samtakanna Solaris og bera fé á einhverja sem opna þeim leið til að ná fólki út af Gaza. Hreytt er ónotum í íslenska embættismenn og neitað að skrá söfnun samtakanna að íslenskum lögum sem hafa meðal annars að markmiði að forða íslenskum bönkum og fjármálakerfi frá hryðjuverkastimpli.

Peningaþvætti kann að felast í flutningi til landsins á illa fengnu fé sem farið er með út að nýju sem hjálparfé og þannig komið til Gaza. Smygl á fólki er ein arðsamasta skipulagða glæpastarfsemi samtímans.

Hvarvetna láta öfgaöfl reyna á þolinmæði þjóðarinnar, leita að aumum bletti til að skapa fordæmi og auka ítök sín. Deilur verða um saklaus viðfangsefni eins og evrópska söngvakeppni vegna þess að inn í hana er stefnt erlendum manni til að syngja lag eftir Íslending. Stjórnendur ríkisútvarpsins stóðust ekki þrýstinginn og sett var á svið svo illa útfært sjónarspil að saklausa keppnin veldur klofningi og sundrung.

Reynt er að þagga niður í þeim sem vekja máls á því sem gerist fyrir augum allrar þjóðarinnar og setja inn í atburðarás tengda blóðugum átökum.

Lengi hefur verið talið á Íslandi búi þjóðin innan vébanda gagnvart fjarlægum stríðsátökum. Svo er ekki lengur. Jafnvel störf alþingis njóta ekki lengur friðhelgi gagnvart ofbeldismönnum sem misnota þingpallana.