8.5.2019 10:41

Vaxandi stuðningur við O3 – Össur til varnar Áslaugu Örnu

Óvenjulegt er að svo öflugur hópur forystumanna í atvinnulífinu taki höndum saman og birti hvatningargrein í blaði.

Í Morgunblaðinu í morgun (8. maí) birtist grein eftir Eyjólf Árna Rafnsson, formann Samtaka atvinnulífsins, Bjarnheiði Hallsdóttur, formann Samtaka ferðaþjónustunnar, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann Samtaka iðnaðarins, Helga Bjarnason, varaformann Samtaka fjármálafyrirtækja, Helga Jóhannesson, formann Samtaka orku- og veitufyrirtækja, Jens Garðar Helgason, formann Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Jón Ólaf Halldórsson, formann Samtaka verslunar og þjónustu, og Magnús Þór Ásmundsson, formann Samtaka álfyrirtækja.

Óvenjulegt er að svo öflugur hópur forystumanna í atvinnulífinu taki höndum saman og birti hvatningargrein í blaði. Tilefnið er einnig óvenjulegt: Hörð atlaga gegn aðild Íslands að EES með þriðja orkupakkann (O3) að vopni. Þessi atlaga hófst á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 16. til 18. mars 2018 að undirlagi Norðmanna sem urðu undir í málinu á norska stórþinginu. Þeir sáu þann leik á borði að hvetja Íslendinga til að fella O3 og setja þar með EES-samstarfið í uppnám.

Tilgangur greinarinnar er að hvetja alþingi til að innleiða O3 og jafnframt að hvetja til samstöðu um aðildina að EES.

Nú er innleiðing O3 á lokametrunum í utanríkismálanefnd alþingis sem fékk málið til meðferðar 9. apríl og sendi út 131 umsagnarbeiðni en 41 umsögn var skilað. Fresturinn til að skila rann út mánudaginn 6. maí. Sex flokkar af átta á alþingi styðja málið eða um 80% þingmanna og stuðningur meðal almennings vex við að fleiri kynni sér efni þess.

Hér í frásögnum mínum hefur komið fram að ég var í hópi þeirra sem lét blekkjast af lygunum sem voru á borð bornar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um efni málsins. Frá því að ég tók að sækja landsfundi á sjötta áratugnum minnist ég þess ekki að fundarmenn hafi verið beittir blekkingum á borð við þær fluttar voru um þetta mál á landsfundinum í mars 2018. Er dapurlegt að enn skuli mætir menn láta þann blekkingarvef ráða afstöðu sinni.

AslaugArna_P7A3733-847x477Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar alþingis.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, er formaður utanríkismálanefndar alþingis. Á þingi þriðjudaginn 7. maí drap hún á þá staðreynd að þeir sem kynntu sér efni O3 styddu hann, hinir sem vissu lítið eða ekkert um málið lýstu andstöðu við það. Þá sagði hún:

„Nú keppast stjórnvöld við að leiðrétta slík skilaboð [rangfærslur um O3] sem komið hefur verið á framfæri með að því er virðist miklum kostnaði, með auglýsingum á alls konar miðlum. Þessar rangfærslur eiga sér greinilega mikið fjárhagslegt bakland.

Það er kannski helsta áskorun nýrra tíma, fyrir okkur öll, að geta greint hismið frá kjarnanum, að geta greint milli falsfrétta, staðreynda og hvaðan upplýsingarnar koma. Nú stöndum við frammi fyrir þeirri áskorun að upplýsa, því að það er alla vega staðreynd að upplýsingar og þekking skipta miklu máli.“

Össur Skarphéðinsson, fyrrv. ráðherra, fylgdist með ræðu Áslaugar Örnu í sjónvarpi. Á FB-síðu sinni 7. maí segir Össur:

„Í kjölfarið slæddist ég inn á „Orkan okkar“ [lokaða síðu O3-andstæðinga] þar sem einhver vitsmunavera hafði deilt frétt af ræðunni. Það var lífreynsla.

Einkunnirnar sem henni voru gefnar af hinum málefnalegu andstæðingum orkupakkaræfilsins voru meðal annars þessar: Dramb, hroki, landráðafólk, ómerkileg, ósmekkleg, forhert, ræningjar, grey, skítalykt, skítadreifarar, „greyið stígur ekki i vitið“, lygi, lágkúra, og kona kallar kynsystur sína „litlu stelpuna sem talar einsog henni er sagt að gera“.

Mega menn ekki hafa skoðanir? Er það ekki í lagi að fara eftir sannfæringu sinni og styðja hana rökum? Eru andstæðingar orkupakkans á móti því að fólk fari eftir fyrirmælum stjórnarskrárinnar og lúti sannfæringu sinni?“

Þessar spurningar Össurar eiga erindi til allra. Þær snerta lykilþátt í umræðunum O3 - takmarkað umburðarlyndi andstæðinga O3 gagnvart skoðunum annarra, ofstopann og hótanirnar.