12.1.2022 9:55

Varúð á ögurstund

Bólusetning er öflugasta vopnið gegn veirunni. Engar upphrópanir hrófla við því.

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, segir réttilega á forsíðu Morgunblaðsins í dag (12. janúar) að „við séum öll spennt að sjá“ hvort takist með núverandi reglum að snúa vörn í sókn gegn veirunni. Maður hafi gengið undir manns hönd við að höfða til fólks og hvetja það til samstillts átaks í þágu sameiginklegra hagsmuna okkar allra. Okkur beri að haga samskiptum við aðra á þann veg að smit náist „undir fimm hundruð á dag“ eins og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafi nefnt.

Sé litið til þess sem hæst ber í umræðum nágrannaþjóða þá eru Danir eru hættir að kippa sér upp við háar smittölur og líta frekar til þess hvernig staðan er á sjúkrahúsunum. Fréttir um það hafi meiri áhrif á skoðun almennings á nauðsynlegum gagnráðstöfunum en fréttir um að smittölur séu í hæstu hæðum.

Í Bretlandi eru fréttir á þann veg að Bretar sé sú þjóð á norðurhveli jarðar sem standi næst því að komast út úr COVID-farsóttinni. Á vefsíðunni The Telegraph er 12. janúar haft eftir prófessor David Heymann, London School of Hygiene and Tropical Medicine, að líklega standi Bretar næst því að losna við farsóttina (e. pandemic) og að um landlægan (e. endemic) sjúkdóm verði að ræða, þeir hafi ef til vill náð þessu stigi nú þegar.

Heymann, sem áður var háttsettur starfsmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), segist hafa skoðað nýjustu tölur frá ONS (Office for National Statistics) um ónæmi meðal þjóðarinnar. Stofnunin telji að 95% íbúa Englands og aðeins lægra hlutfall annars staðar í Bretlandi séu með mótefni gegn sýkingu, annaðhvort vegna bólusetningar eða smitsýkingar. Þetta haldi veirunni í skefjum.

Stop-vid-erum-oll-almannavarnir

Evrópudeild WHO segir nú að ómikron-afbrigðið sé „ný holskefla“ í Evrópu og spár gefi til kynna að yfir 50% manna smitist á næstu sex til átta vikum.

Hávær minnihluti óbólusettra kvartar undan að lagt sé að honum að nýta sér bóluefni sem vörn. Gripið er til alls kyns þrýstings gegn bólusetningu á stjórnmálavettvangi, innan stjórnsýslunnar og með málshöfðunum. Þessum einstaklingum færi best að hafa hljótt um sig, geyma ákvarðanir sínar hjá sér, taka því sem að höndum ber og láta aðra í friði á opinberum vettvangi.

Hér á landi neyða opinber yfirvöld enga til bólusetninga. Á hinn bóginn er eðlilegt að skýrt sé frá því hvort fleiri eða færri óbólusettir eru í hópi þeirra sem verst eru haldnir á sjúkrahúsum. Það er sjálfsagður hluti opinberrar upplýsingamiðlunar um gang veirunnar. Auðveldar einstaklingum mikilvæga ákvörðun um eigin hag.

Nú er í boði bólusetning fyrir íslensk börn. Bandaríska heilbrigðisráðuneytið rannsakaði gögn eftir að 8,7 milljón börn voru bólusett með Biontech bóluefni, eins og notað er hér. Niðurstaða rannsóknarinnar sýndi aðeins 12 tilvik hjartavöðvabólgu hjá fimm til ellefu ára börnum. Ekkert barnanna lagðist inn á sjúkrahús, hjartavöðvabólga er talinn alvarlegasti fylgikvilli bólusetningar með Biontech-efni.

Bólusetning er öflugasta vopnið gegn veirunni. Engar upphrópanir hrófla við því.