30.12.2025 9:39

Varnarlaust velferðarkerfi

Slíkt kerfi skapar sterka hvata. Það er illskiljanlegt að svo skammur búsetutími dugi til fullra réttinda í einu örlátasta velferðarkerfi Evrópu. Afleiðingin blasir við í tölunum: hratt vaxandi fjöldi bótaþega og síhækkandi útgjöld.

Frétt í Morgunblaðinu í dag (30. desember) sem reist er á svari Ingu Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn Rósu Guðbjartsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, varpar skýru og óþægilegu ljósi á þróun íslenska velferðarkerfisins.

Samkvæmt svarinu hefur hlutfall örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega með íslenskan bakgrunn hækkað úr 13% í 18% frá árinu 2012. Þetta þýðir að nær fimmtungur starfandi fólks á vinnumarkaði fær nú slíkar bætur. Hlutfallið er enn hærra meðal íslenskra kvenna, þar sem tæpur fjórðungur kvenna á vinnumarkaði fellur undir kerfið. Slík þróun ætti ein og sér að kalla á rækilega stefnumótandi umræðu.

Enn alvarlegri eru þó tölurnar um erlenda ríkisborgara.

Fjöldi erlendra ríkisborgara sem fá örorku- eða endurhæfingarlífeyri hefur aukist úr 455 einstaklingum árið 2012 í 2.539 árið 2025 – nærri sexföld aukning. Á meðal kvenna af erlendum bakgrunni hefur fjöldinn sextánfaldast. Þá hefur fjöldi þeirra sem fá endurhæfingarlífeyri vaxið úr 98 í 1.464 einstaklinga, sem jafngildir um 23% árlegum meðalvexti.

Þessar tölur eru ekki náttúrulögmál. Þær eru afleiðing pólitískra ákvarðana.

Screenshot-2025-12-30-at-09.38.01Rósa Guðbjartsdóttir (mynd:mbl.is).

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu skömmu fyrir jól benda Arnar Arinbjarnarson, Róbert Bragason og Kristinn S. Helgason á að nýlegar ákvarðanir stjórnvalda um stórfelldar hækkanir bótagreiðslna, ásamt mjög greiðum aðgangi erlendra ríkisborgara að kerfinu, séu líklegar til að leiða til enn meiri fjölgunar bótaþega á næstu árum. Grein þeirra er reist á sömu gögnum og koma fram í svari ráðherrans við fyrirspurn Rósu Guðbjartsdóttur.

Samkvæmt nýju örorkulífeyriskerfi, sem tók gildi í september 2025, geta greiðslur til einstaklings með fullan örorkulífeyri og heimilisuppbót numið rúmum 462 þúsund krónum á mánuði. Erlendir ríkisborgarar geta sótt um endurhæfingarlífeyri eftir aðeins eins árs lögheimili hér á landi og örorkulífeyri eftir þrjú ár.

Slíkt kerfi skapar sterka hvata. Það er illskiljanlegt að svo skammur búsetutími dugi til fullra réttinda í einu örlátasta velferðarkerfi Evrópu. Afleiðingin blasir við í tölunum: hratt vaxandi fjöldi bótaþega og síhækkandi útgjöld.

Þrátt fyrir að örorku- og endurhæfingarmál séu meðal útgjaldafrekustu málefnasviða ríkissjóðs er gagnsæi af skornum skammti. Eins og greinarhöfundar Morgunblaðsins benda á hefur almenningur lítið sem ekkert aðgengi að sundurliðuðum upplýsingum um uppruna, kyn, dvalartíma eða þróun bótaþega. Slík upplýsingaleynd er ekki ásættanleg þegar um er að ræða tugi milljarða króna á ári.

Fá, ef nokkur, Evrópuríki verja jafn háu hlutfalli af vergri landsframleiðslu til örorkumála og Ísland. Samt er í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2026 gert ráð fyrir enn frekari hækkunum til þessa málaflokks, án sýnilegrar stefnu um viðspyrnu gegn rangri notkun. Sé hún óþekkt hér er það einsdæmi í heiminum.

Þörf er á endurskoðun á búsetuskilyrðum, á framkvæmd kerfisins og ekki síst á gagnsæi Tryggingastofnunar. Það er eðlileg krafa að stofnunin birti reglulega sundurliðaðar upplýsingar í samræmi við alþjóðlega staðla, svo stjórnvöld og almenningur geti metið þróunina á raunsæjan hátt.

Velferðarkerfi er reist á trausti. Sinni stjórnvöld ekki greiningu og liggi á upplýsingum til almennings, skattgreiðendanna, grafa þau sjálf undan þessu trausti.